Fréttasafn



11. okt. 2016 Iðnaður og hugverk

100 stjórnendur skrifa undir áskorun að tölvunarfræði verði skyldufag

X Hugvit hefur fengið 100 stjórnendur hátt í 80 fyrirtækja og samtaka til að skrifa undir viljayfirlýsingu með áskorun til stjórnvalda að tölvunarfræði verði skyldufag á grunnskólastigi. 

Í yfirlýsingunni kemur fram að þau sem rita undir vilja að tölvunarfræði verði innleidd í aðalnámskrá grunnskóla og að tryggt sé að markviss forritunarkennsla verði skylda frá fyrstu árum grunnskólans. Í áskoruninni stendur: „Við teljum að forritunarkunnátta sé lykilþáttur í læsi 21. aldarinnar og að til þess að tryggja börnunum okkar gott lífsviðurværi á Íslandi í framtíðinni þurfi íslenskt menntakerfi að taka mikilvæg skref í átt að því að undirbúa börnin fyrir störf framtíðarinnar. Tölvur eru allt í kringum okkur og munu verða enn veigameiri þáttur í lífi okkar. Störf, bæði á innlendum og erlendum vinnumarkaði, krefjast sífellt meiri þekkingar á virkni tölva og óhætt er að segja að sú þróun eigi eftir að verða sífellt hraðari á næstu árum. Svo íslensk börn geti notið góðs af auknu tæknistigi í heiminum þurfa þau að hafa getu til að beisla kraft tölvunnar frá sjónarhóli sköpunar, fremur en bara sjónarhóli neyslu. Með því að kenna tölvunarfræði og forritun í grunnskóla tryggjum við að öll börn hafi næga möguleika til að öðlast færni í þessu mikilvæga fagi og komum í veg fyrir að fagið virki ógnvekjandi á nemendur síðar á skólagöngu sinni. Nú þegar hafa þau hagkerfi sem við berum okkur jafnan saman við innleitt tölvunarfræði í aðalnámskrá á grunnskólastigi. Sem dæmi má nefna að nýleg könnun meðal þjóða í Evrópu sýndi að 19 af þeim 20 þjóðum sem tóku þátt í könnuninni voru ýmist nú þegar búnar að innleiða tölvunarfræði í aðalnámskrá, eða höfðu hafið vinnu við að innleiða tölvunar fræði og forritun í aðalnámskrá (Heimild: European Schoolnet). Við skorum á verðandi stjórnvöld að tryggja öllum börnum á Íslandi undirbúning fyrir störf framtíðarinnar með því að innleiða tölvunarfræði sem skyldufag á grunnskólastigi.“

Stjórnendur eftirtalinna fyrirtækja og samtaka hafa skrifað undir:

Össur, Marel, CCP, Advania, Nýherji, Valitor, Meniga, Síminn, Vodafone, Creditinfo, Samtök iðnaðarins, KPMG, Deloitte, Nova, Nox Medical, Hugvit, Microsoft á Íslandi, GreenQloud, Matís, Novomatic LS, Plain Vanilla, TripCreator, NSA, Eyrir Invest, NMÍ, Icelandic Startups, Ský, Hugsmiðjan, Bókun, OZ, Northstack, Startup Iceland, Outcome kannanir, Gagarín, Expectus, Kaptio, Vistvæn orka, CrankWheel, Takumi, Tagplay, Lumenox, RVX, Aldin Dynamics, Mure, Solid Clouds, Radiant Games, Applicon, Stiki, Star-Oddi, Licorice, Netkerfi og tölvur, Borealis Data Center, Sensa, Skema, Rosamosi, Cario, Reon, MouseTrap, Locatify, Bungalo, Authenteq, Vizido, Watchbox, Konunglega siglingasambandið, TeqHire, Loftfarið, Literal Streetart, Anitar, Miracle, Algalíf, TravAble, Gracipe, MyTimePlan, Tjarnargatan, Trackwell, Maskína rannsóknir, Frumtak Ventures, Kolibri.