Fréttasafn



18. okt. 2016 Almennar fréttir Menntun

150 milljóna króna þróunarsjóður um fagháskólanám

Stórt skref var stigið þegar undirrituð var í gær viljayfirlýsing um stofnun þróunarsjóðs fagháskólanáms með það að markmiði að efla verk- og starfsnám. Lokið hefur verið við tillögur verkefnishóps um fagháskólanám sem skilað hefur verið til mennta- og menningarmálaráðherra. Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út í júní 2014 Hvítbók um umbætur í menntun, þar sem koma fram áherslur um eflingu starfsmenntunar og kemur þar fram að afstaða skuli tekin til þess hvort stofna skuli sérstakt fagháskólastig. Ráðherra skipaði verkefnishóp til að fylgja áherslum Hvítbókarinnar eftir og skilgreindi hópurinn markmið, mælikvarða og aðgerðir til að hrinda áherslunum í framkvæmd. Sneri eitt markmiðið sérstaklega að því að byggja upp fagháskólastig til framtíðar. Í verkefnishópnum sátu auk fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB,  Landssambands íslenskra stúdenta, Sambands íslenskra framhaldsskólanema, Samstarfsnefndar háskólastigsins, Samtaka atvinnulífsins og Skólameistarafélags Íslands.  

Í tillögum verkefnishópsins er lagt til að farið verði af stað með fagháskólanám sem þróunarverkefni árið 2017 og a.m.k  5 mismunandi námsleiðir verði skilgreindar til þróunar og innleiðingar. Þeim er ætlað að verða fyrirmynd almenns fagháskólanáms varðandi form náms og innihald. Einnig er lagt til að ráðherra skipi formlegan samráðsvettvang sem heitir samstarfsráð um fagháskólanám þeirra aðila sem nú skipa verkefnishóp um fagháskólanám auk Sambands íslenskra sveitarfélaga og að ríkið og atvinnulífið (SA, ASÍ, BSRB) stofni sameiginlegan þróunarsjóð til að fjármagna þróunarverkefnið fyrir vorönn 2017 og skólaárið 2017-2018. Um er að ræða einskiptisaðgerð en framtíðarfjármögnun fagháskólanáms fari eftir tillögum samstarfsráðsins um framtíðarskipan námsins.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Hannes G. Sigurðsson framkvæmdastjóri SA, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB undirrituðu viljayfirlýsingu um stofnun þróunarsjóðsins og er sjóðnum ætlað að styrkja þróun og framboð á námsleiðum, kostnað við rekstur verkefna, kynningu og innleiðingu. SA, ASÍ og BSRB lýsa sameiginlega yfir vilja til að starfsmenntasjóðir á forræði aðila eða aðildarsamtaka þeirra setji í sjóðinn 50 milljónir króna við stofnun hans 1. janúar 2017. Mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, lýsir yfir vilja til að við gerð fjárlaga árið 2017 verði veitt 100 milljón króna framlagi í sjóðinn. Sjóðinn á að nýta vorið 2017 og skólaárið 2017-18. Í stjórn sjóðsins eiga að sitja fimm stjórnarmenn, tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra og þrír tilnefndir af öðrum stofnaðilum.