Fréttasafn



15. apr. 2016 Starfsumhverfi

42% fyrirtækja innan SI segja styrkingu krónunnar koma sér vel

Í könnun sem Samtök iðnaðarins (SI) hafa gert meðal aðildarfyrirtækja sinna sést að 38% svarenda telja íslensku krónuna hentugan gjaldmiðil fyrir þann atvinnurekstur sem viðkomandi stendur í. Þetta kemur fram í grein í Morgunblaðinu í dag.

Þá telja 23% svarenda að gjaldmiðillinn henti starfsemi sinni illa. Þegar niðurstöður könnunarinnar eru bornar saman við sambærilega könnun sem gerð var í fyrra kemur í ljós að mun fleiri telja krónun hentugan gjaldmiðil nú en fyrir ári. Árið 2015 sögðu 29% svarenda að hún hentaði vel og því hefur sá hópur stækkað um níu prósentustig á einu ári. Ekki er marktæk breyting á svarhlutfalli þeirra sem telja krónuna henta illa. Í fyrra var sá hópur 24% svarenda.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, segir að niðurstaðan komi í sjálfu sér ekki á óvart. „Þetta breytta viðhorf má mögulega skýra með því að viðhorfið hefur fylgni við batnandi efnahagsástand í landinu og stöðugleika innan hafta.“

Gengisstyrkingin kemur sér vel

Í fyrrnefndri könnun var einnig spurt: „Gengi krónunnar styrktist um 8% árið 2015 og er gengi evru nú um 143 kr. og dollars 127 kr. Hversu vel eða illa kemur gengisþróun krónunnar við þinn rekstur?“ Af svörum má dæma að 48% aðildarfyrirtækja SI telja að styrking krónunnar hafi komið sér vel fyrir rekstur þeirra en 18% fyrirtækjanna telja að hún hafi komið sér illa fyrir þau. 37% svarenda töldu að gengisstyrkingin hefði hvorki komið sér vel né illa fyrir sinn rekstur. Frá því að könnunin var gerð hefur gengi krónunnar styrkst enn.

Svör aðildarfyrirtækja SI gefa til kynna að mikill munur sé á afstöðu þeirra, meðal annars eftir því í hvaða greinum þau starfa og hver stærð þeirra er.

„Það er ljóst að þau fyrirtæki sem standa í útflutningi eru ósáttari en þau sem byggja á innflutningi á aðföngum. Innan Samtaka iðnaðarins eru fyrirtæki sem eru í alþjóðlegri starfsemi og útflutningi. Þegar könnunin er túlkuð verður að taka með í reikninginn að þau eru töluvert færri en fyrirtækin sem ekki eru í útflutningi,“ segir Almar.

Þannig virðast minni fyrirtæki, hvort sem litið er til veltu eða starfsmannafjölda, fremur telja að krónan henti rekstri sínum betur. Fyrirtæki með yfir 100 starfsmenn og yfir þriggja milljarða veltu eru ekki eins sátt við krónuna sem gjaldmiðil. Fyrirtæki í byggingariðnaði og mannvirkjagerð eru mun jákvæðari í garð krónunnar en fyrirtæki í hugverka- og tækniiðnaði.

Áskoranir framundan

Almar segir að á vettvangi SI hafi menn þónokkrar áhyggjur af því ef krónan styrkist meira en orðið er. „Þó svörin gefi til kynna að margir séu ánægðir með að krónan sé sterk, þá er ekki víst að þeir hinir sömu vilji að hún styrkist enn meira.“ Almar bendir á að mikil styrking myndi ógna samkeppnishæfni landsins. „Krónan hefur styrkst um 10% síðasta árið, laun hafa hækkað langt umfram það sem gengur og gerist erlendis og þá eru vextir hér hærri en annars staðar. Allt þetta dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna og gerir íslenskum fyrirtækjum erfitt um vik að takast á við samkeppni erlendis frá.“

Hann bendir á að þetta eigi ekki aðeins við um mörg fyrirtæki innan vébanda SI heldur einnig sjávarútveginn og ferðaþjónustuna. „Það má heldur ekki gleyma því að skammtímastyrking getur haft áhrif til langs tíma, við horfum upp á að fyrirtæki missa markaði sem þau hafa komið sér inn á, oft á löngum tíma,“ bætir Almar við.

Birt í Morgunblaðinu 15. apríl 2016
Blaðamaður Stefán E. Stefánsson