Fréttasafn



21. jún. 2017 Almennar fréttir Nýsköpun

50 englafjárfestar á Íslandi

Gefin hefur verið út handbók fyrir norræna sprotamarkaðinn með áherslu á englafjárfestingar. Í handbókinni sem KPMG hefur tekið saman fyrir Nordic Innovation kemur meðal annars fram að á Íslandi sé fjöldi englafjárfesta 50 í samanburði við 130 í Danmörku, 350 í Noregi, 600 í Finnlandi og 800-1.000 í Svíþjóð. Bornir eru saman skattar á fyrirtæki þar sem hæsta hlutfallið er í Noregi eða 25%, í Danmörku og Svíþjóð eru fyrirtækjaskattar 22%, í Finnlandi og á Íslandi er fyrirtækjaskatturinn 20%. 

Í handbókinni kemur einnig fram að þó norrænu löndin séu einungis með 8% hlutdeild af vergri landsframleiðslu (GDP) í Evrópu þá eru þau með 50% af evrópskum sprotum sem metin hafa verið yfir 1 milljarð bandaríkjadala. Í þeim hópi eru Skype og Spotify í Svíþjóð, Sitecor í Danmörku og Supercell í Finnlandi. Þessi sprotafyrirtæki eru nefnd einhyrningar vegna þess hversu sjaldgæf þau eru. En talið er að þessi árangur gefi til kynna hversu gott stuðningsumhverfi er fyrir sprotafyrirtæki í norrænu löndunum, hversu auðvelt er að stunda viðskipti og aðgengi er að fjármagni. Þá segir að umhverfi fyrir englafjárfesta sé stöðugt að batna þar sem tengslanetið hafi orðið skipulagðara og fjárfestingatækifæri, vitund og upplýsingar um englafjárfestingar sé orðið betra. Fyrir englafjárfesta skipta skattar og reglugerðarumhverfi miklu máli enda hefur það áhrif á hversu eftirsóknarvert það er að fjárfesta í sprotafyrirtækjum.

Hér má nálgast skýrsluna.