Fréttasafn



1. jún. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Ábyrg matvælaframleiðsla til umræðu í Kaldalóni

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, var meðal frummælenda á ráðstefnu Matvælalandsins Íslands sem fram fór í Kaldalóni í Hörpu í gær. Á ráðstefnunni var fjallað um ábyrga matvælaframleiðslu og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sérstaklega var fjallað um hvernig fyrirtæki í matvælageiranum geta tileinkað sér ábyrga framleiðsluhætti, t.d. með því að auka sjálfbærni, minnka sóun, auka hagkvæmni í orkunotkun, bæta nýtingu auðlinda og ganga vel um umhverfið. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, setti ráðstefnuna. 

Serena Brown, stjórnandi á sviði sjálfbærrar þróunar hjá ráðgjafarfyrirtækinu KPMG á Englandi, hélt erindi um heimsmarkmið SÞ og sjálfbæra þróun. Hún fjallaði um þau tækifæri sem felast í því fyrir fyrirtæki í matvælageiranum að tileinka sér gildi hennar. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, ræddi um samkeppnisforskot á grunni ábyrgðar og upplýsingagjafar og Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca Cola European Partners, sagði frá starfsemi síns fyrirtækis. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, ræddi um ábyrgar fiskveiðar. Guðrún var meðal þeirra sem sögðu reynslusögur af sínu fyrirtæki, auk hennar voru það Arnheiður Hjörleifsdóttir, bóndi á Bjarteyjarsandi, Eva María Sigurbjörnsdóttir, framleiðslustjóri Eimverks, Bryndís Marteinsdóttir,  verkefnastjóri hjá Landgræðslu ríkisins, og Ólafur Helgi Kristjánsson, matreiðslumeistari á Hótel Sögu, sem sögðu frá sínum fyrirtækjum.

Að samstarfsvettvanginum Matvælalandið Ísland standa Bændasamtökin, Háskóli Íslands, Íslandsstofa, Matís, Matarauður Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök iðnaðarins.

Á Facebook er hægt að skoða fleiri myndir. 

Gudrun-og-bryndisGuðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs SI, og Stefán Magnússon hjá Coca Cola European Partners á Íslandi. 

Matur_1527866158016Boðið var upp á mat úr íslensku hráefni. 

KaldalonRáðstefnan var haldin í Kaldalóni.