Fréttasafn



9. apr. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Aðgerðir til að örva nýsköpun þurfa að koma fljótt

Gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins stendur á þremur meginstoðum sem eru ferðaþjónusta, sjávarútvegur og iðnaður. Vöxtur þessara atvinnugreina, hyggjuvit og stefna stjórnvalda hefur stuðlað að þeim lífsgæðum sem við búum við í dag. En við þurfum fjórðu stoðina, öflugan hugverkaiðnað sem eykur velmegun. Hugvit er óþrjótandi, takmarkalaus auðlind og hugverkaiðnaður þjónar öllum öðrum iðngreinum, eykur framleiðni og verðmætasköpun þvert á aðrar stoðir og greinar atvinnulífsins. Þetta kom meðal annars fram í máli Sigríðar Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs SI, í erindi hennar hjá Völku en fyrirtækið efndi til fagnaðar í nýjum húsakynnum sínum í Vesturvör 29 í Kópavogi síðastliðinn föstudag með viðskiptavinum og velunnurum. 

Alþjóðlegt kapphlaup um störf og verðmæti

Í máli Sigríðar kom einnig fram að það væri góð byrjun að ríkisstjórnin hyggist koma fram með nýsköpunarstefnu en aðgerðir til að örva nýsköpun og menntun þyrftu að koma fljótt. Hún sagði að við gætum ekki leyft okkur að taka tvö ár í stefnumótun þar sem um væri að ræða alþjóðlegt kapphlaup um störf og verðmæti í þeirri nýju iðnbyltingu sem væri hafin. Þar sem efling nýsköpunar muni hafa úrslitaáhrif á það hvar Ísland mun standa í samanburði við önnur ríki eftir nokkur ár.  „Þetta er ekki plan um að hygla einni atvinnugrein á kostnað annarra. Þetta er plan um að stuðla að uppbyggingu sjálfbærs iðnaðar sem er allt um lykjandi og eykur verðmæti, við fáum meira úr minna með öflugu hugviti.“

Í erindi sínu lagði hún til nokkrar aðgerðir sem þyrfti að ráðast í:

  • Efla fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja og sníða vankanta af löggjöf vegna fjárfestingar einstaklinga í sprotum
  • Afnám þaks á endurgreiðslur vegna R&Þ sem áformað er samkvæmt ríkisfjármálaáætlun 
  • Efla hvata fyrir erlenda sérfræðinga til að búa og starfa á Íslandi
  • Efla samstarf háskóla, atvinnulífs og stjórnvalda og að stefna í menntamálum endurspegli áherslu á hugverkadrifið atvinnulíf
  • Endurskoðun á opinberu styrkjakerfi með það að markmiði að fjármunum ríkissjóðs sé varið með þeim hætti að sem mestur árangur náist og verðmætasköpun

Finnar umbreyttu hagkerfi sínu á fáum árum

Sigríður  tók dæmi af Finnum sem tókst á fáum árum að umbreyta hagkerfi sínu úr auðlindadrifnu og einhæfu hagkerfi í hugverka- og þekkingadrifið hagkerfi með skýrri sýn og stefnumótun. „Við getum gert það líka.  En það þarf að ganga hratt til verks svo að tækifærið renni okkur ekki úr greipum. Breytingar eru hraðari í dag en áður hefur þekkst. Með skýrri sýn og aðgerðum getum við aukið líkurnar á að við eignumst fleiri fyrirtæki eins og Völku.“

Á myndinni fyrir ofan er Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku, og Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. 

Hugmynd eins manns orðin að leiðandi fyrirtæki á heimsvísu

Valka sem er aðildarfyrirtæki SI hefur á fáum árum vaxið frá því að vera hugmynd eins manns yfir í að vera leiðandi fyrirtæki á heimsvísu þegar kemur að hátæknilausnum fyrir sjávarútveg. Boðið var upp á dagskrá þar sem rætt var um frekari sóknarfæri Íslendinga í fjórðu iðnbyltingunni og hvernig við getum gert okkur gildandi í því alþjóðlega kapphlaupi sem nú er hafið.

Auk þeirra þriggja sem eru á myndinni hér fyrir ofan komu fram Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Huginn Freyr Þorsteinsson frá Aton sem kynnti rannsóknir sínar á sóknarfærum og stöðu íslensks sjávarútvegs og iðnaðar í sjálfvirknibyltingu heimsins, og Sólveig Arna Jóhannesdóttir, markaðsstjóri botnfiskafurða hjá HB Granda, sem flutti erindi með yfirskriftinni Samstarf atvinnuvega skapar verðmæti. 

Valka_1

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI.

Hér er hægt að nálgast glærur Sigríðar.