Fréttasafn



10. mar. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Aðkallandi að styrkja raforkuflutningsnetið

Sveinn I. Ólafsson, framkvæmdastjóri Verkís, var með framsögu fyrir umræður um raforku og orkuskipti á Iðnþingi:

Við ætlum að ræða saman næstu 20 mínúturnar eða svo um raforkumarkaðinn og orkuskipti. Ég ætla að tæpa í byrjun á nokkrum atriðum sem einkenna íslenskan raforkumarkað en hann er um margt sérstakur. Íslendingar eru svo lánsamir að eiga miklar endurnýjanlegar orkulindir. Orkuvinnsla á íbúa á Íslandi er sú hæsta í heimi. Um fjórðungur útflutnings byggir á nýtingu orkuauðlindanna. Raforkuvinnslan byggir eingöngu á endurnýjanlegri orku, um þrír fjórðu á vatnsafli og afgangurinn á jarðvarma. Vinnsla málma á Íslandi með endurnýjanlegri orku sparar mikla losun gróðurhúsagasa á heimsvísu.

Íslandsmarkaður er ótengdur öðrum raforkumörkuðum (amk enn sem komið er) þannig að við getum ekki keypt orku af öðrum ef þörf verður á.  Við vinnum heldur enga raforku úr eldsneyti.  Af því leiðir að við getum ekki mætt breytilegu vatnrennsli (eða minni vindi þegar þar að kemur) með því að framleiða meiri raforku með olíu, kolum eða gasi. Við þurfum að haga okkar raforkuvinnslu þannig að hún fullnægi eftirspurn við verstu skilyrði og þurfum því að eiga varabirgðir af vatni í lónum sem sjaldnast er gengið á. Það þarf líka að stjórna framboði á markaðnum þannig að ekki komi til raforkuskorts en mesta hættan á því er á vorin þegar lónin eru að tæmast en áður en sumarrennsli hefst í ánum.

Önnur afleiðing af því að engin raforka er unnin úr eldsneyti er að öll raforkuvinnslan er án breytilegs kostnaðar en það getur haft talsverð áhrif á skilvirkni markaðslausna.

Einungis um 20% af raforkunni sem við vinnum á Íslandi er nýtt á almennum markaði en 80% í orkufrekum útflutningsiðnaði. Það eru í raun tveir ólíkir markaðir fyrir raforku á Íslandi. Á stórnotendamarkaði selja þrír framleiðendur örfáum notendum um 14 TWh á ári í langtímasamningum. Notkun allra annarra fyrirtækja og heimila, sem við köllum almenna raforkumarkaðinn, er um 4 TWh á ári.  Dreifiveiturnar á almenna markaðnum fá um helming orkunnar frá tengdum framleiðendum en afgangurinn er keyptur á heildsölumarkaði, aðallega frá Landsvirkjun.

Heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar stýrir verðmyndun. Það er ástæða til að skoða hvort markaðslausnir eigi við á heildsölumarkaðnum.

Verðmunur á stórnotendamarkaðnum og heildsölumarkaðnum fer minnkandi. Álag á almenna markaðnum er mjög breytilegt en alltaf jafnt á stórnotendamarkaði þannig að orkuverð á honum verður alltaf lægra. Ef verðmunur verður of lítill þá minnkar áhugi framleiðenda á því að selja inn á almenna markaðinn sem getur endað með skorti.

Það er ljóst að nútíma þjóðfélag verður ekki rekið án raforku. Það er eðlileg krafa að hægt sé að staðsetja almenna atvinnustarfsemi þar sem hentar á landinu án þess að aðgengi að rafmagni hindri. Þannig er staðan ekki í dag að minnsta kosti ekki alls staðar á landinu. Byggðalínukerfið sem flytur orku milli landshluta, að mestu fyrir almenna markaðinn, er að stofni til að verða 40 ára gamalt og löngu sprungið. Það er farið að hindra viðskipti með raforku og standa í vegi fyrir uppbyggingu bæði framleiðenda og notenda. Góð nýting auðlindanna byggist meðal annars á því að hægt sé að selja raforku milli landshluta. Sama má segja um skilvirkni markaðar ef til kemur.

Það er orðið mjög aðkallandi að styrkja flutningsnetið og Landsnet hefur sett fram valkosti í kerfisáætlun. Í umræðunni um hana ber mest á mótbárum gegn vissum valkostum og margir virðast vera á móti flestum þeirra. Það kemur þó að því fyrr en síðar að það þarf að taka ákvarðanir um hvernig á að styrkja flutningskerfið.