Fréttasafn



  • Borgartún 35

15. mar. 2016 Lögfræðileg málefni Starfsumhverfi

Áfengisfrumvarpið veikir stöðu innlendra bjórframleiðenda

Innlendar bjórtegundir orðnar hátt í 70

 

Mikil aukning hefur orðið í sölu á innlendum bjór á síðustu árum en hlutfall innlends bjórs í sölu hjá ÁTVR hefur aukist frá því að vera 56% á árinu 2001 í það að verða 71% á síðasta ári. Fyrirtækjunum hér á landi sem framleiða bjór hefur fjölgað töluvert undanfarin ár og eru nú orðin 7 talsins. Þá hefur stöðugt bæst í fjölda innlendra bjórtegunda og eru tegundirnar nú orðnar hátt í 70 en voru innan við 10 fyrir 15 árum.

 

Samtök iðnaðarins telja að ef heimilt verður að selja áfengan bjór í búðum eins og stefnt er að með nýju áfengisfrumvarpi þá styrki það erlend vörumerki frekar en innlend því þau erlendu hafa forskot vegna heimildar til að auglýsa vörur sínar í fjölmiðlum sem berast til landsins. Innlendir bjórframleiðendur hafa ekki sömu möguleika til að kynna sínar vörur sem gæti leitt til verulegs ójafnræðis og veikt þannig stöðu innlendra framleiðenda. 

 

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, segir samtökin vilja stuðla að heilbrigðu starfsumhverfi framleiðenda enda sé það allra hagur að hér dafni blómlegur iðnaðar. „Við viljum að þeir fjölmörgu gestir sem heimsækja landið eigi þess kost að gæða sér á innlendri framleiðslu. Því er mikilvægt að hugað sé að því að innlendir framleiðendur áfengra drykkja hafi sömu möguleika og erlendir framleiðendur að koma vörum sínum á framfæri. Þá má ekki gleyma því að innlend framleiðsla skilur eftir sig meiri virðisauka fyrir samfélagið en innflutningur gerir. Nú þegar frumvarpið hefur verið afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis viljum við beina því til þingmanna að hafa í huga hvaða afleiðingar frumvarpið gæti haft á innlenda framleiðslu ef innlendir framleiðendur geta ekki keppt á jafnræðisgrunni áfram. Ef um er að ræða vörur sem keppa á frjálsum markaði verður að fylgja því frelsi til að kynna vörurnar. Til að veikja ekki stöðu innlendra framleiðenda er því nauðsynlegt að greina betur áhrifin af þeim lagabreytingum sem felast í frumvarpinu. Við höfum bent allsherjar- og menntamálanefnd á þetta með skýrum hætti og þess vegna kemur það á óvart að málið sé afgreitt úr nefnd án þess að meiri greining fari fram,“ segir Almar.