Fréttasafn



3. maí 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Ágallar í lögum um skattafrádrátt vegna fjárfestinga í sprotum

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Davíð Lúðvíksson hjá Samtökum iðnaðarins um skattafrádrátt sem heimilaður er vegna fjárfestinga í sprotafyrirtækjum en mun færri fyrirtæki en ætla mætti hafa sótt um leyfi hjá Ríkisskattstjóra til að nýta heimild um útgáfu og sölu hlutabréfa samkvæmt lögum um skattafrádrátt vegna fjárfestingar í sprotafyrirtækjum. Lögin voru sett í fyrra og segir Davíð þetta vera svona þrátt fyrir að vöntun sé á fjármagni til áframhaldandi uppbyggingar á nýsköpunarfyrirtækjum, en hefur umsjón með Samtökum sprotafyrirtækja. Þóroddur Bjarnason, blaðamaður, skrifar að félögin sem sótt hafa um séu KoPrA sem framleiðir fæðubótarefni og leikjafyrirtækin SolidClouds og 1939 Games. 

Hér á eftir fer viðtalið sem birt er í Morgunblaðinu í heild sinni: Davíð segir þetta ekki koma á óvart því samtökin bentu á það í sínum umsögnum um lagafrumvarpið á síðasta ári að of margar hindranir væru í lögunum sem gera fyrirtækjunum erfitt fyrir að nýta þau. „Lögin fóru í gegn á síðasta ári með þessum ágöllum sem ekki reyndist unnt að laga í málsmeðferðinni vegna tímahraks. Lagfæringar á lögunum eru án útgjalda fyrir ríkið og raun hreinn ávinningur því sýnt hefur verið fram á að ríkið heldur eftir um 25% af hverju hlutafjárútboði þegar skattalegu hvatarnir hafa verið gerðir upp,“segir Davíð í samtali við Morgunblaðið. 

Kvaðir um fjölskylduvensl

Eitt af þeim fyrirtækjum sem vinnur nú að umsókn er sprotafyrirtækið Vizido. Erlendur Steinn Guðnason, meðstofnandi félagsins, og formaður Samtaka sprotafyrirtækja, segir í samtali við Morgunblaðið að takmarkanir í lögunum séu margar bagalegar, og einkum strangar kvaðir um fjölskylduvensl, starfsmenn og stjórnarsetur. 

Vizidio framleiðir snjallsímaforrit sem gengur út á að nota ljósmyndir og vídeó sem tekið er á snjallsíma til að hjálpa fólki að búa til minnisatriði. Félagið hóf starfsemi af fullum krafti fyrir rúmu ári og fékk síðan tveggja ára styrk úr Tækniþróunarsjóði. Félagið er enn í þróunarfasa, og er ekki byrjað að fá tekjur. Næsta skref er sókn á alþjóðamarkað, og þá þarf að afla meira fjármagns. 

Erlendur segir að hingað til hafi þeir fjármagnað þróunina úr eigin vasa til viðbótar við styrkinn úr Tækniþróunarsjóði. Hann segir að það að fá samþykki fyrir endurgreiðslu hjá Ríkisskattstjóra muni greiða götuna fyrir þá fjárfesta sem hafa verið að fylgjast með þeim. Spurður að því úr hvaða átt þeir fjárfestar komi, segir Erlendur að um sé að ræða svokallaða englafjárfesta auk einstaklinga. 

„Eins og í Vizido eru fyrstu fjárfestar í sprotafyrirtækjum oftast einstaklingar sem tengjast stofnendum fjölskylduböndum og starfsmenn. Eins og þetta frumvarp er í dag þá útilokar það stóran hluta fjárfesta af þessari tegund.“ Eins og kom fram í Morgunblaðinu á laugardaginn þá áttu forsvarsmenn nýsköpunar- og sprotaiðnaðarins fund með Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra á dögunum. Erlendur segir að ráðherrann hafi tekið mjög vel í að taka lögin til endurskoðunar á haustþingi, sem gefi þeim tilefni til bjartsýni.

Morgunblaðið, 3. maí 2017.

Fréttin á mbl.is.