Fréttasafn



15. jan. 2015 Nýsköpun

Áhugi fyrirtækja á stefnu Tækniþróunarsjóðs og endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar

Samtök iðnaðarins efndu til kynningarfundar með Rannís um nýja stefnumótun stjórnar Tækniþróunarsjóðs og endurnýjun laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

Næsti umsóknarfrestur Tækniþróunarsjóðs er 15. febrúar nk., en eftir harða varnarbaráttu SI og Hátækni- og sprotavettvangs fyrir sjóðinn gegn niðurskurðaráformum á síðasta ári hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka aftur framlög til sjóðsins á árinu 2015 og áformar að efla sjóðinn um 1 milljarð kr. til viðbótar á árinu 2016. M.a. af þessu tilefni vinnur stjórn sjóðsins að endurnýjun á stefnu sjóðsins. Sigurður Björnsson hjá Rannís kynnti stefnudrögin í byrjun fundar. Markmiðið er að auka fjölbreytni og nýliðun í verkefnum sjóðsins, bæta framkvæmd með snarpara ferli og öflugri styrkjum og bæta árangur fyrirtækjanna með auknum faglegum kröfum og bolmagni til að klára verkefnin á skemmri tíma.

Nýir styrkir í boði

Breyting er áformuð á núverandi kerfi og bætt verður inn nokkrum nýjum styrkjaflokkum í áföngum eftir því sem aukið fjármagn skilar sér í sjóðinn. Á fyrri hluta þessa árs er áformað að innleiða nýja styrki til öflunar einkleyfa, en núverandi forverkefnastyrkir verða þess í stað lagðir af. Á seinni hluta ársins er áformað að innleiða nýja rannsóknastyrki og fyrirtækjastyrki með einfaldara matsferli, en núverandi frumherjastyrkir verða lagðir af. Þá er til skoðunar að setja upp sérstök áherslusvið seinni hluta þessa árs. Á árinu 2016 er áformað að bæta inn þremur nýjum tegundum fyrirtækjastyrkja af mismunandi stærðum í stað núverandi verkefnastyrkja.

 

Myndin sýnir hvernig þessir nýju styrkjaflokkar tengjast ólíkum þróunar- og vaxtarskeiðum fyrirtækjanna. Nánari upplýsingar um þessa nýju styrkjaflokka er að finna í kynningarglærum Tækniþróunarsjóðs.

Fundarmönnum gafst kostur á að koma með athugasemdir og hugmyndir að því sem betur mætti fara í starfsemi sjóðsins. Í þeirri umræðu komu m.a. fram eftirfarandi atriði:

  • Skoða þarf betur matsferli og mat á verkefnum sem ætti það til að vera full breytilegt milli ára byggt á huglægu mati fagráða. Það gerir umsækjendum erfiðara að bæta umsóknir milli ára þar sem þættir sem áður hefðu fengið góða einkunn gætu lækkað í mati í næstu umsókn, án þess að skýring væri gefin á breyttum forsendum.

  • Skoða og skilgreina betur nýnæmishugtakið og samband þess við samkeppni fyrirtækja á markaði. 

  • Halda námskeið í umsóknartækni fyrir nýja umsækjendur til að bæta skilning á matsforsendum og tæknilegum atriðum.

  • Þá var bent á þörf á stuðningi/styrkjum til að sækja um skráningar, leyfisveitingar, CE-merkingar og fleiri slík tæknileg atriði til að ná fótfestu og trúverðugleika á nýjum mörkuðum með nýjar vörur. Varpað var fram þeirri hugmynd að nýjir „Brúarstyrkir“ tækju til slíkra þátta.

Framlenginu laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki fagnað

Í lok fundarins var komið inn á  framlengingu laga varðandi skattívilnun til endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði sem voru endurnýjuð til ársins 2019 í lok síðasta árs . http://www.althingi.is/altext/144/s/0784.html

Sjá glærur.

Framlengingu laganna var fagnað af fundarmönnum, en bent á nauðsyn þess að gera reglurnar skýrari og aðgengilegri m.a. með aukinni fræðslu. Nauðsynlegt væri að kynna fyrirkomulagið betur fyrir fyrirtækjum, ekki síst á landsbyggðinni. Bent var á að óvissa ríkti meðal fyrirtækja um hvort hámarks endurgreiðsla upp á 20(30) mkr. væri bundin við fyrirtæki eða verkefni og að lagatextinn væri ekki nægilega skýr í þessu efni. Þá var bent á að Norðmenn hafa tvöfaldað þökin á hámarks endurgreiðslu verkefna/fyrirtækja frá því að okkar kerfi var komið á, að norskri fyrirmynd. Fundurinn leið hratt og eflaust hafa vaknað spurningar í kjölfar hans og þörf fyrir að koma fleiri ábendingum á framfæri. Áhugasömum er bent á að hafa samband við SI og/eða Rannís.

Sambærilegur kynningarfundur verður haldinn á Akureyri miðvikudaginn 21. janúar nk.

Sjá nánar: http://www.rannis.is/sjodir/rannsoknir/taeknithrounarsjodur/