Fréttasafn



13. des. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Ákall um stöðugleika snýst um stöðug starfsskilyrði

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í grein í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag að ákall iðnaðarins um stöðugleika snúist um stöðug starfsskilyrði. Í því sambandi sé verðbólgan ekki eina viðmiðið þó að hún sé mikilvægur mælikvarði. Hann segir að verðbólgan sé við verðbólgumarkmið og hafi verið það frá upphafi árs 2014 en um sé að ræða lengsta tímabil verðstöðugleika síðan verðbólgumarkmiðið var tekið upp í mars 2001. 

Mikil hækkun gengis og launa veldur óstöðugleika

Ingólfur bendir á að á þessum tíma verðstöðugleika hafi ekki verið mikill stöðugleiki að öðru leyti í íslensku efnahagslífi og nefnir að gengi krónunnar hafi til dæmis hækkað um 31% á þessum tíma og laun hafi hækkað um 36% sem er langt umfram framleiðnivöxt og þær launahækkanir sem sést hafa í þeim löndum sem íslensk fyrirtæki keppi helst við. „Það hefur því ekki verið neinn stöðugleiki á þessum tíma í samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar eða annarra íslenskra fyrirtækja þó að verðbólgan hafi verið við markmið Seðlabankans.“

Í grein Ingólfs kemur fram að ekkert land innan OECD hafi gengið í gegnum viðlíka sveiflu í raungengi gjaldmiðils síns og Ísland síðastliðinn áratug en raungengi krónunnar sé mælikvarði á þróun samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum. „Ekkert iðnvætt ríki hefur því boðið sínum fyrirtækjum upp á jafn mikinn óstöðugleika í samkeppnisstöðu á þessum tíma. Það hefur því verið mikill óstöðugleiki hér á landi á þann mælikvarða.“

Stöðugleiki í verði, gengi og launum bætir starfsumhverfi fyrirtækja

Í niðurlagi greinar sinnar segir Ingólfur að það sé ekki nægjanlegt að áherslan sé á verðbólgumarkmið eitt heldur þurfi einnig að draga úr hagsveiflum og auka stöðugleika í gengismálum. Einnig þurfi ný ríkisstjórn að hvetja til þess að launabreytingar taki meira mið af framleiðnivexti og þróun í útflutningsgreinunum. Með slíkum stöðugleika væri bætt til muna starfsumhverfi íslensks iðnaðar og íslenskra fyrirtækja almennt til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.