Fréttasafn



27. apr. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun

Alltof ströng skilyrði hlutabréfakaupa tengdra aðila

Skilyrði um að einstaklingar sem nýta heimild til hlutabréfakaupa megi ekki vera tengdir félaginu sem þeir fjárfesta í sem stjórnarmenn eða vera tengdir slíkum aðila fjölskylduböndum eru alltof ströng og úr takti við hvernig sprotafyrirtæki eru almennt fjármögnuð. Þetta skilyrði útilokar í reynd stóran hluta þess hóps sem almennt er hvað virkastur í fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja á uppbyggingartíma. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, 423. mál, sem send var efnahags- og viðskiptanefnd í vikunni.

Mikilvægt að endurskoða ákvæði nýsköpunarlaganna frá 2016 í heild sinni 

Í umsögninni segir jafnframt að SA og SI fagni fyrirliggjandi breytingum á lögum um tekjuskatt sem snúa að hvötum til hlutabréfakaupa í sprotafyrirtækjum. Skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa var innleiddur með setningu nýsköpunarlaganna árið 2016 og var mikið framfaraskref fyrir frumkvöðlaumhverfið á Íslandi. Þá segir að mikilvægt sé að endurskoða ákvæði nýsköpunarlaganna frá 2016 í heild sinni með það að markmiði að efla þau og gera enn skilvirkari og eru tilgreind til viðbótar við of ströng skilyrði hlutabréfakaupa tengdra aðila; stærðarmörk fyrirtækja, skráning á First North, starfsemi eignarhaldsfélaga, bakfærsla frádráttar og kaupréttir.

Í niðurlagi umsagnarinnar segir að samtökin hvetji efnahags- og viðskiptanefnd til að stuðla að enn frekari eflingu á skattalegum hvötum vegna fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og skapa þannig hagstæðara rekstrarumhverfi fyrir sprotafyrirtæki á Íslandi.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.