Fréttasafn



11. mar. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Bæði konur og karlar eiga að móta byggingariðnaðinn

„Það er gífur­ega mikilvægt fyrir atvinnugreinina að laða konur að enda eiga þær þangað fullt erindi. Við eyðum mjög miklum tíma innandyra og vel hönnuð og byggð húsnæði og vinnustaðir skipta því sköpum fyrir velferð okkar allra og vellíðan. Þá hefur þessi iðnaður auk þess áhrif á komandi kynslóðir og ásýnd samfélagsins sem við búum í. Auðvitað eiga bæði konur og karlar því að koma að því að þróa og móta byggingariðnaðinn hér á landi.“ Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins í viðtali á mbl.is en hún er fyrsta konan til að leiða mannvirkja­svið SI.

„Við lifum sem betur fer á tímum þar sem konur eru að taka að sér ný verk­efni og störf og ég er stolt af því að vera fyrsta konan á þessu sviði. Við störfum þó fyrst og fremst sem mjög gott teymi á mannvirkjasviði SI og það hefur verið ánægjuleg upplifun að kynnast öllu því flotta fólki sem starfar í at­vinnugreininni.“

Hún segir hlutföll kynjanna hafa breyst meðal hönnuða og ráðgjafa, t.d. hvað varðar arkitekta og ráðgjafarverkfræðinga sem hún telur mjög jákvætt. „Við hefðum þó viljað sjá mun fleiri konur fara í iðnnám af öllum toga sem og taka að sér margvíslegar stjórnunarstöður innan fyrirtækjanna í bygginga- og mannvirkjagerð. Það er mikilvægt að atvinnugreinin sé eins fjölbreytt og hægt er til að koma að nýjum hugmyndum og skoðunum. Við komum vonandi til með að sjá breytingar á þessu.“

Þátttaka SI í Verk og vit 

Í viðtalinu segir Jóhanna Klara frá hlutverki Samtaka iðnaðarins í tengslum  við sýninguna Verk og vit sem opnaði í Laugardalshöllinni á fimmtudaginn. „Það er m.a. hlutverk samtakanna að styðja við bakið á viðburðum sem og að auka sýnileika þeirra iðngreina sem við störfum fyrir. Við komum því að sýningunni sem styrktaraðili, tökum þátt á henni og opnun hennar sem og komum að ráðstefnu sýningarinnar.“

Um tækifærin í byggingariðnaðnum í framtíðinni segir hún þau mörg. „Við komum til með að sjá miklar breytingar bæði hvað varðar rekstrarumhverfið sem og þær vörur sem við getum hannað, þróað og framleitt. Fólk er t.d. að verða mjög meðvitað um innivist og neytendur munu gera auknar kröfur til bygginga um nákvæmar upplýsingar á rauntíma á borð við líftíma bygginga, hljóðvist, hitastig, raka, loftgæði o.fl. Það eru spennandi tækifæri í því að þróa upplýsingatækni og vélbúnað sem mun mæta þessum þörfum.“

Á mbl.is er hægt að lesa viðtalið við Jóhönnu Klöru í heild sinni.

Johanna-Klara-med-hjalm