Fréttasafn



13. jún. 2018 Almennar fréttir

Blikur á lofti í íslensku efnahagslífi

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag um blikur sem eru á lofti í íslensku efnahagslífi. Hann segir reglulegar fréttir af fyrirtækjum sem loka starfsemi hér á landi, segi upp starfsfólki og telji hagkvæmara að skipta við fyrirtæki sem framleiða erlendis þar sem laun eru lægri sé ein birtingarmynd þess hvernig sam­keppnis­hæfni Íslands er um þessar mundir þar sem hátt raungengi og staðan á vinnumarkaði reyni verulega á rekstur fyrirtækja umfram það sem eðlilegt getur talist. 

Heimatilbúinn vandi sem stjórnvöld geta haft áhrif á

Í grein sinni segir Sigurður að ein forsenda bættrar samkeppnis­hæfni sé að starfsumhverfi sé stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt. Aukinn og víðtækur stöðugleiki sé ekki bara til hagsbóta fyrir fyrirtæki heldur allt íslenskt samfélag. Undanfarin ár hafi ytri skilyrði verið hagfelld en því megi ekki treysta til framtíðar litið. Háir skattar, há laun og háir vextir í alþjóðlegu samhengi vinni þó á móti auk þess sem lengra er gengið í innleiðingu EES reglugerða en þörf krefji. Hann segir að það jákvæða í stöðunni sé þó það að þetta sé heimatilbúinn vandi sem stjórnvöld hafi öll tækifæri til að vinna á og efla þar með samkeppnishæfni Íslands.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.