Fréttasafn



1. jún. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

BrewBar sigraði í Ecotrophelia Ísland

BrewBar bar sigur úr býtum í vöruþróunarsamkeppninni Ecotrophelia Ísland og mun þar með taka þátt í  Evrópukeppni Ecotrophelia í París í október. BrewBar er orkustykki þar sem uppistaðan í hráefninu er hrat úr bjórgerð. Að verkefninu standa Ainhoa Arriero Castaño, Björn Kr. Bragason and Dovydas Raila. 

Þrjú lið kepptu

Það voru þrjú lið háskólanemenda sem tóku þátt í keppninni hér á landi. Auk BrewBar voru Bítsa og Basta sem er pítsubotn og pestó, hvoru tveggja búin til úr útlitsgölluðu blómkáli, höfundar eru Ingibjörg Ásbjörnsdóttir, Ólafur Pálsson, Stefán Örn Snæbjörnsson og Þóra Kristín Sigurðardóttir. Mjólkurdropinn eru smáskammtar af mjólk á  föstu formi til að forðast plastumbúðir, ætlaðir út í heita drykki. Höfundar eru Dagbjört Inga Grétarsdóttir og Magnús Snær Árnason. 

Í dómnefnd voru Ragnheiður Héðinsdóttir, viðskiptastjóri matvælaiðnaðar á framleiðslusviði SI, Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs SI, Grímur Ólafsson, matvælafræðingur og sérfræðingur hjá Matvælastofnun, Hannes Ottósson, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Lilja Rut Traustadóttir, gæða- og mannauðsstjóri hjá Gæðabakstri.

Stuðla að þróun nýrra umhverfisvænna matvara

Markmið Ecotrophelia Ísland keppninnar er að stuðla að þróun nýrra umhverfisvænna matvara fyrir íslenskan og alþjóðlegan markað, ásamt því að auka umhverfisvitund og þjálfa frumkvöðlahugsun nemenda. Að keppninni standa Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Matís og Samtök iðnaðarins í samstarfi við íslenska háskóla. 

Með þátttöku í keppninni öðlast nemendur þekkingu og reynslu af heildarferli vöruþróunar en auk þess fá sigurvegararnir viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna, vegleg peningaverðlaun og verðlaunagrip frá aðstandendum keppninnar, ávísun á sérfræðiaðstoð og ráðgjöf frá bæði Nýsköpunarmiðstöð og Matís og síðast en ekki síst þátttökurétt í Ecotrophelia Europe sem er sambærileg keppni við sigurlið frá öðrum Evrópuríkjum. Ísland hefur tekið þátt í keppninni frá árinu 2011 en Evrópukeppnin verður haldin í París í október.

Á myndinni fyrir ofan eru talið frá vinstri Dagbjört Inga Grétarsdóttir (Mjólkurdropinn), Ingibjörg Ásbjörnsdóttir (Bítsa og Basta), Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Björn Kr. Bragason (BrewBar) og Ragnheiður Héðinsdóttir hjá Samtökum iðnaðarins. 

Img_1844Ragnheiður Héðinsdóttir hjá SI tilkynnti um úrslitin í keppninni.

Img_1862Kristján Þór Júlíusson, sjávarútegs- og landbúnaðarráðherra, afhenti Birni Kr. Bragasyni verðlaunin.

BrewbarBrewBar.

BestoBítsa og basta.

MjolkurdropinnMjólkurdropinn.

2018_allir_keppendur_img_5556Keppendurnir.

DomnefndDómnefnd.