Fréttasafn



7. jún. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun

Brýnt að gera sprotaumhverfið samkeppnishæft

Erlendur Steinn Guðnason, formaður SSP - Samtaka sprotafyrirtækja, segir í ViðskiptaMogganum í dag að þrátt fyrir miklar framfarir sé margt sem megi laga í rekstrarumhverfi íslenskra sprota og brýnt sé að gera sprotaumhverfið hér á landi samkeppnishæft við það sem þekkist í öðrum löndum og þannig laða að fjárfesta, fyrirtæki og hæfileikafólk. Hann segir brýnt að sprotaumhverfið á Íslandi sé jafn gott, og helst betra, en í nágrannalöndunum. „Við sjáum árangurinn á stöðum eins og Kanada þar sem ákveðið var á sínum tíma að veita sprotafyrirtækjum mjög hagfellt rekstrarumhverfi, og leyfa útlendingum sem settust þar að til að vinna hjá tæknifyrirtækjum að starfa í landinu í fimm ár skattfrjálst. Þetta var kostnaðarsöm tilraun en stjórnvöld sáu að með því að laða að fólk og fyrirtæki myndu verða til mikil verðmæti seinna meir. Það er þessari stefnu að þakka að í Montreal hefur orðið til blómlegur tölvuleikjaiðnaður, og einnig er það þessari stefnu að þakka að fyrirtæki eins og OZ ákváðu að flytja sig um set.“ 

Erlendur-Steinn-GudnasonHann segir í umfjölluninni að íslenskt stjórnvöld hafi stigið það skref að bjóða erlendum sérfræðingum sem flytjast hingað til lands að greiða ekki skatt af fjórðungi tekna sinna í þrjú ár en til að keppa við staði eins og Kanada myndi þurfa að gera enn betur, og þá ekki aðeins með fjárhagslegum hvötum heldur líka með því að ryðja úr vegi hindrunum sem gera íslenskum fyrirtækjum erfitt um vik að ráða til sín fólk frá löndum utan EES.

Þessu til viðbótar segir Erlendur Steinn að hækka þurfi endurgreiðsluhlutfall vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar, breyta þeim skilyrðum sem gilda í dag um skattaafslátt vegna fjárfestinga í sprotum og að æskilegt væri að nema úr gildi reglur sem kveða á um að frumkvöðlar reikni sér ákveðin lágmarkslaun, eftir tilteknum viðmiðunartöxtum, og greiði tekjuskatta og önnur gjöld af þeirri upphæð þó svo að þeir kjósi að greiða sér lítil eða engin laun, og jafnvel þó reksturinn hafi litlar sem engar tekjur. 

ViðskiptaMogginn, 7. júní 2018. 

Morgunbladid-7-juni-2018