Fréttasafn



12. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Brýnt að sveitarfélög ráðist í innviðaframkvæmdir

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, flutti erindi á fjármálaráðstefnu Sambands sveitarfélaga í morgun. Innviðir eru lífæðar samfélagsins var yfirskrift erindis Sigurðar þar sem hann fjallaði um ástand innviða hér á landi og beindi sjónum sínum sérstaklega að þeim innviðum sem eru á ábyrgð sveitarfélaga.

Í máli Sigurðar kom meðal annars fram að endurstofnvirði allra helstu innviða hér á landi er um 3.500 milljarðar króna samtals, stærstur hluti þess er í orkuvinnslu og þjóðvegum landsins. Það eru því veruleg verðmæti bundin í innviðum og endurspeglar umfangið mikilvægi innviða fyrir íslenska hagkerfið en virði innviða er um 140% af vergri landsframleiðslu. Uppsöfnuð viðhaldsþörf er metin um 370 milljarðar króna og er ástandið verst í vegum og fráveitum. Þegar horft er til innviða sveitarfélaga er endurstofnvirði þeirra um 1.200 milljarðar króna bundið í fasteignum, hitaveitum, fráveitum, vatnsveitum, höfnum, vegum og úrgangsmálum. Uppsöfnuð viðhaldsþörf þeirra innviða sem eru á ábyrgð sveitarfélaga er metin 170 milljarðar króna. Ástand innviðanna er misgott og verst er ástandið í vegum og fráveitum. Sigurður benti meðal annars á að fjórðungur íbúa landsins býr við enga skólphreinsun og að það sé langt í land með að innleiða skólphreinsun í samræmi við skuldbindingar gagnvart EES. Í niðurlagi erindis síns sagði Sigurður brýna þörf vera á innviðauppbyggingu og að ráðast þyrfti strax í innviðaframkvæmdir með sérstaka áherslu á vegamál, fasteignir, fráveitur og úrgangsmál.

Hér er hægt að nálgast glærur Sigurðar. 

Á vef Sambands sveitarfélaga er hægt að nálgast upptökur af dagskránni.