Fréttasafn



16. jún. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Endurskoða verður leyfisferli framkvæmda

Nýgenginn dómur í Hæstarétti um eignarnámsheimild ráðherra til Landsnets vegna lagningar á raforkustrengjum vegna afhendingar raforku til kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík beinir athygli að nauðsyn þess að taka þarf núgildandi leyfisferli framkvæmda til gagngerrar endurskoðunar. Í þessu tiltekna máli sýnir það sig að kærumál geta sett verkefni óvænt í uppnám á síðustu metrunum eða þegar framkvæmdir eru komnar vel á veg.

Þegar um stórframkvæmdir er að ræða sem kosta mikinn mannafla og fjármagn þarf að vera vissa fyrir því að ekki komi til þess að stöðva þurfi framkvæmdir eða þær tafðar með tilheyrandi kostnaði. Í því tilviki sem hér um ræðir hafa raforkulagnir verið í undirbúningi í nær áratug. Það er því mikið áhyggjuefni hversu seint kærur geta borist og hlýtur að kalla á að breytinga sé þörf þar sem kæruheimild sé mun fyrr í ferlinu svo hægt sé að leysa úr ágreiningsmálum.

Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs Samtaka iðnaðarins, segir að horfa verði á ferlið heildstætt. „Tryggja þarf að ágreiningsmál séu leyst snemma í ferlinu og kærur komi tímanlega fram svo úrskurða megi í deilumálum. Í því samhengi þarf að horfa á mat á umhverfisáhrifum, framkvæmdaleyfi og aðra opinbera meðferð sem þarf fyrir framkvæmdir. Við teljum því brýnt að stjórnvöld taki til endurskoðunar leyfisferli framkvæmda með það að markmiði að stuðla að meiri skilvirkni. Það er hagur allra að lágmarka óvissu í framkvæmdum af hvaða toga sem þær eru. Með markvissara ferli væri hægt að draga úr óþarfa töfum og kostnaði.“