Fréttasafn



12. des. 2017 Almennar fréttir Lögfræðileg málefni

Fá fyrirtæki hafa hafið undirbúning fyrir ný persónuverndarlög

Í nýrri könnun meðal aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins kemur fram að 24% fyrirtækja hafa hafið undirbúning fyrir gildistöku nýrra persónuverndarlaga og 72% hafa ekki hafið undirbúning. Þau fyrirtæki sem eru með gæðakerfi eru þó líklegri til að hafa hafið undirbúning. Þetta kom fram í máli Bjargar Ástu Þórðardóttur, lögfræðings SI, á vel sóttum fundi sem samtökin héldu í morgun í Húsi atvinnulífsins. Í könnuninni kemur jafnframt fram að þau ákvæði reglugerðarinnar sem valda fyrirtækjum mestum áhyggjum eru ákvæði sem lúta að réttindum einstaklinga um að gleymast og þeim rétti að að fá afhent gögn. En í nýrri reglugerð þurfa fyrirtæki að vera með verkferla sem tryggja að hægt sé að verða við beiðnum einstaklinga með skilvirkum hætti. Tímaskortur virðist vera stærsta hindrun fyrirtækjanna við innleiðinguna en lögin taka gildi í maí næstkomandi.  

Í könnuninni var spurt hvaða áhrif það hefði á fyrirtækið ef kæmi til álagningar hámarksfjárhæðar stjórnsýslusektar samkvæmt nýju reglugerðinni sem getur verið allt að 4% af ársveltu samsteypu að hámarki 20 milljónir evra. 15% sögðu að fyrirtækið gæti greitt sektina, 17% að fyrirtækið yrði að fá lán og 35% að fyrirtækið gæti orðið gjaldþrota. 

Fundur1

Glærur frummælenda

Þrír frummælendur voru á fundinum sem bar yfirskriftina Er þitt fyrirtæki undirbúið fyrir breytingar á persónuverndarlögum? Hér fyrir neðan er hægt að nálgast glærur fundarins.

Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur SI, kynnti niðurstöður könnunar SI á meðal félagsmanna um persónuvernd. Bjorg-Asta-Thordardottir-12-12-17

Arna Hrönn Ágústsdóttir, lögfræðingur og CIPP/E hjá Nýherja, sagði að starfsmannafræðsla væri lykilatriði við innleiðingu. Hálft ár er liðið síðan innleiðing á nýrri persónuverndarreglugerð hófst af fullum krafti hjá Nýherja. Ákveðið var að fjárfesta í þekkingu starfsmanna, þ.m.t. almennri fræðslu fyrir alla starfsmenn sem hefur reynst fyrirtækinu vel í innleiðingarferlinu. Í erindinu var farið yfir helstu vandræði sem fyrirtækið hefur staðið frammi fyrir og það sem vel hefur farið. Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi starfsmannafræðslu í innleiðingarferlinu.  Arna-Hronn-SI-12-12-17

Guðmundur Stefán Björnsson, framkvæmdastjóri ferla og öryggis hjá Sensa, fór yfir hvað tæki við eftir að ný persónuverndarlög taka gildi í maí á næsta ári. Varpaði hann ljósi á nýju persónuverndarlögin og hvernig þau birtast fyrirtæki eins og Sensa sem er í hýsingar- og rekstrarþjónustu. Í erindinu var farið yfir hvernig staðið er að undirbúningi, nálgun og hverjar eru helstu áskoranir.  Gudmundur-Stefan-Bjornsson-12-12-17

Bein útsending

Fundurinn var í beinni útsending á Facebook.

Fundur4