Fréttasafn



21. okt. 2016 Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Fjölbreyttur iðnaður í sátt við umhverfið

Loftslagið hlýnar og betri umgengni við umhverfið eru verkefni sem við verðum að takast á hendur. Iðnaðurinn er þar í lykilhlutverki, tilbúinn með lausnir og hugmyndir. Fyrirtækin í landinu eru í lykilstöðu til að bæta nýtingu auðlinda og minnka sóun með því að leggja metnað í að starfa í sem mestri sátt við umhverfi og samfélag.

Atvinnulífið er hreyfiafl sem getur komið með lausnirnar sem hjálpa til við að ná markmiðum okkar. Ísland hefur fullgilt Parísarsamninginn og áætlar í samstarfi við ESB og Noreg að ná fram 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Hringrásarhagkerfið miðar að því að minnka sóun auðlinda og sett eru markmið um að færa efni í hringrás endurvinnslu í auknum mæli. Umhverfis- og loftslagsmál eru þverfagleg verkefni sem krefjast samvinnu fjölda aðila úr ólíkum áttum, jafnvel aðila sem ekki vinna annars saman. Með því að styrkja uppbyggingu fyrirtækja á þessu sviði er hægt að leggja stoðir undir sterka atvinnugrein sem fylgir grænni tækni.

Breytingum fylgja ávallt ný tækifæri. Heimurinn kallar eftir tæknilausnum sem minnka losun gróðurhúsalofttegunda og Ísland getur gripið tækifærið. Þannig stuðlum við að minni losun, ekki bara heima fyrir heldur einnig á alþjóðavettvangi. Okkar forskot liggur í fjölbreyttum iðnaði sem byggst hefur upp vegna góðs aðgengi að endurnýjanlegri orku. Það er mikilvægt að atvinnulífið verði virkjað enn frekar til að Ísland nái markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum. Stjórnvöld þurfa að vinna náið með atvinnulífinu að því að ná settum markmiðum.

Orku- og umhverfismál skipta iðnaðinn í landinu miklu máli. Við viljum að þau stjórnvöld sem taka við að loknum þingkosningum virki hugvit og þekkingu fyrirtækja og einstaklinga til að að auka endurvinnslu úrgangsefna og vinna að nýtingu endurnýjanlegrar orku í samgöngum og skipum. Það er hagur okkar allra að umhverfismálin fái veglegan sess í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs SI.

Vísir, 20. október 2016.