Fréttasafn



18. jan. 2018 Almennar fréttir Menntun

Fjórða iðnbyltingin lifnar við í FB

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, FB , fékk góða gesti til sín í dag þegar Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri rekstrar SI, komu við. Í kynnisferð um skólann í fylgd Guðrúnar Hrefnu Guðmundsdóttur, skólameistara, og Magnúsar Ingvarsonar, aðstoðarskólameistara, kom skýrt fram hversu öflugt og fjölbreytt nám er í skólanum. Heimsókn SI er liður í því að efla tengsl og samstarf atvinnulífs og skóla. 

Gestirnir komu við í Fablab Reykjavík þar sem nemendur hafa tækifæri til að vinna að nýsköpun í fjölbreyttri mynd hvort sem efniviðurinn er tré, plast eða rafmagn. Nemendur voru meðal annars að vinna að því að prenta hjarta úr mjúkum efnivið í þrívídd og sagt var frá því því hvernig nú er hægt að fræsa rafmagnsleiðslur í vínilefni.

Það sem meðal annars vakti athygli í kynnisferðinni var hvernig nýsköpun er beitt til að koma mörgum greinum saman, líkt og forritun, upplýsingatækni, rafmagnsgreinum og trésmíði. Þannig eru nýjar námsgreinar tengdar við eldri greinar. 

Í FB er lögð jöfn áhersla á bóknám, listnám og verknám og er námið sniðið að breiðum hópi nemenda. Í skólanum er lögð áhersla á að nýta til fulls kosti áfangakerfisins og fjölbreytt námsframboð til þess að nemendur geti fundið sér nám við hæfi, meðal annars er boðið upp á kvöldskóla og sumarskóla.

Á myndinni fyrir ofan eru talið frá vinstri Magnús Ingvarson, Sigurður Hannesson, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir.

FB3-

FB5

FB7

FB8_Rafvirkjabraut