Fréttasafn



11. okt. 2016 Iðnaður og hugverk

Flestir hlynntir því að forritun verði skyldufag

92% landsmanna eru hlynnt því að forritun sé skyldufag á grunnskólastigi og einungis 8% eru andvíg. 59% eru mjög eða fremur hlynnt því og 34% eru fremur hlynnt. Þetta kom meðal annars fram á fundi X Hugvit sem haldinn var í gær í Kaldalóni í Hörpu. Á fundinum voru flutt fimm erindi sem svöruðu því á mismunandi hátt hvernig menntakerfið gæti gefið íslenskum börnum forskot. Í erindi sem Vignir Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Radiant Games og formaður Samtaka tölvuleikjaframleiðenda (IGI) flutti kom einnig fram að 84% telja að það skipti mjög eða fremur miklu máli að kennsla og kennsluefni í grunnskólum landsins sé í takti við tækniþróun. Þetta sýna niðurstöður úr könnun sem Maskína gerði meðal 18-75 ára. Niðurstöðurnar byggja á svörum 816 svarenda.

Tryggvi Hjaltason, framleiðandi hjá CCP, fór yfir þau verkfæri sem við erum með til að gjörbylta menntakerfinu og benti hann á að samkvæmt könnun Maskínu væru einungis 1,4% mjög ánægð almennt með menntastefnuna á Íslandi. Í könnuninni kemur einnig fram að 29,3% segjast vera fremur ánægð og 44% eru í meðallagi ánægð. Óánægðir með menntastefnuna eru 25,6%. Róbert Helgason, sérfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, flutti erindi um einstaklingsmiðaðan fullnustulærdóm og benti á mikilvægi þess að hver einstaklingur gæti lært á þeim hraða sem hentar svo hægt væri að byggja þekkingu ofan á góðan grunn. Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari og tækniráðgjafi á fræðslusviði Skagafjarðar, sagði frá lærdómi í sýndarveruleika og hvernig börn læra að nota tæknina sem valdeflandi verkfæri. Ragnheiður H. Magnúsdóttir, hjá Marel, formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) og varaformaður Hugverkaráðs, greindi meðal annars frá verkefni þar sem forritanlegar smátölvur sem nefnast Microbit verða gefnar íslenskum krökkum í 6. og 7. bekk og keppni sem efnt verður til þar sem markmiðið er að vekja börn til umhugsunar um mikilvægi forritunar í daglegu lífi og  sýna þeim að forritun er órjúfanlegur hluti tilverunnar. Í lok fundarins var efnt til pallborðsumræðna þar sem Guðríður S. Sigurðardóttir, ritstjóri í upplýsinga-og tæknimennt, Menntastofnun, og Ragnar Þór Pétursson, kennari í Norðlingaskóla, ræddu við framsögumenn um málefni fundarins.

Könnun Maskínu: Menntun_Maskinuskyrsla

Umfjöllun á RÚV . Umfjöllun á Stöð 2