Fréttasafn



15. apr. 2016 Gæðastjórnun Iðnaður og hugverk

Framleiðni eykst með bættu öryggi

Fundaröð um framleiðni

Öryggi og framleiðni var yfirskrift fundar sem SI stóð fyrir í morgun í Húsi atvinnulífsins. Þetta var 9. fundurinn í fundarröð þar sem framleiðni er í brennidepli. Ferdinand Hansen, verkefnastjóri gæðastjórnunar SI, og Ragnheiður Héðinsdóttir, forstöðumaður matvælasviðs SI, stýrðu fundinum.

Eyjólfur Bjarnason, gæðastjóri LNS Saga, sagði framleiðni aukast ef öryggismálin eru í lagi, jafnvel þó það geti verið erfitt að mæla það og færa sönnur fyrir því. En ef ferlum er vel stýrt svo koma megi í veg fyrir slys og fjarveru starfsfólks þá skilar það meiri framleiðni. Eyjólfur ræddi um þau atriði sem hann telur að skipti mestu máli en þar á meðal eru vinnulýsingar, áhættugreining, skýr ábyrgðarskipting, flæði vöru inn á vinnustaðinn, þekking starfsmanna, upplýsingaflæði, skipulag vinnustaðarins og góð áætlanagerð. Hann nefndi einnig mikilvægi þess að stefna og markmið fyrirtækisins væru skýr og notað sem stjórntæki. Það eykur öryggi starfsmanna þegar þeir vita hvert umhverfið er. Eyjólfur kom einnig inn á vottanir sem hann sagði að væru umdeildar en sköpuðu nauðsynlegt aðhald og það skili miklum árangri ef vitað er að það kemur einhver utanaðkomandi og skoðar hvernig málum er háttað. Hann er þeirrar skoðunar að öll fyrirtæki ættu að vera með vottun því það hafi góð áhrif á framleiðni. Eyjólfur nefndi að líkt og í maraþonhlaupi þyrfti að vera vel undirbúinn til að ná árangri. 

Guðmundur Gunnarsson, gæðastjóri Rafal, lýsti því hvernig fyrirtækið tekur á öryggismálum. Rafal var stofnað 1983 en það framleiðir dreifispenna sem notaðir eru í íslensk raforkukerfi og hafa yfir 1.000 spennar verið framleiddir á síðustu 5-6 árum. Þá þjónustar fyrirtækið veitufyrirtæki, gagnaver, álver og annan iðnað. Í fyrirtækinu er öryggi og heilbrigði starfsmanna á vinnustað sett í öndvegi og sagði Guðmundur að Rafal veiti allan nauðsynlegan öryggisbúnað fyrir starfsmenn. Fyrir hvert verk er útbúið áhættumat. Hann sagði alla starfsmennina sameinast um að halda uppi virku öryggiseftirliti, áhersla væri á að setja góðar merkingar og leiðbeiningar ásamt viðvörunarmerkjum. Rafal er oft með starfsemi við varasamar og hættulegar aðstæður og sagði Guðmundur að það væri oftast þannig þegar unnið er við rafmagn, jafnvel í mikilli hæð uppi í háum möstrum, því eigi starfsmenn að nota allan öryggisbúnað sem kröfur eru gerðar um. Hann nefndi meðal annars öryggishjálma, skó með stáltá, öryggislínur og  öryggisatriði við hífingar. Hann sagði fagþekkingu skipta gríðarlega miklu máli og áhersla væri lögð á að menn fari á námskeið og kynni sér allar reglur í kringum fagið sitt. Guðmundur sagði ekki annað hægt en að taka fullt tillit til öryggismála því annars væri voðinn vís. Færri fjarvistir vegna slysa og veikinda auka afköst og almenna framleiðni fyrirtækisins og framleiðnin er háð góðri öryggisstefnu. 

Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungarverksmiðjunnar, lýsti hvernig starfsemin fer fram í verksmiðjunni þar sem þangi er safnað af sláttuprömmum og settir í poka, hífðir um borð í skip og flutt í land á bretti þar sem þangið er meðhöndlað. Afurðirnar eru þang og þaramjöl sem selt er út um allan heim og notað meðal annars í þurrfóður, fæðubótarefni, áburð, matvæli, drykkjarvörur, snyrtivörur og lyf. Fyrirtækið er í 71% eigu bandarísks fyrirtækis sem er með 50-60 verksmiðjur út um allan heim, þá á Byggðastofnun og minni hluthafar einnig í fyrirtækinu. Hann sagði miklar öryggiskröfur vera gerðar til fyrirtækisins þar sem mið er tekið af því sem gert er annars staðar meðal annars með vottunum. Reksturinn byggir á nýtingu náttúrulegra auðæfa og sjálfbærri nýtingu þar sem um fullkominn rekjanleika væri að ræða. Hann sagði að í raun væri starfsemin sambland af útgerð, iðnaði, landbúnaði og vísindum. Mikil áhersla er lögð á öryggismál og fjöldi staðla er notaður. Hann sagði markmiðið vera að engin slys verði og það segi sig sjálft að framleiðni eykst ef öryggið er í lagi.