Fréttasafn



22. nóv. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Frjór jarðvegur til aukinna fjárfestinga að mati Landsbankans

Í þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans, sem birt var í morgun, kemur fram að jarðvegur til aukinnar fjárfestingar í atvinnulífinu hefur, á ýmsa mælikvarða, líklega aldrei verið jafn frjósamur og nú. Jókst fjárfesting í hagkerfinu um 23% á síðastliðnu ári sem er mesti vöxtur frá árinu 2006 og reiknar deildin með nokkuð kröftugum vexti í ár og á næsta ári, eða 11,7% og 10,4%.

Atvinnuvegafjárfesting helst í hendur við gengisþróun krónunnar

Segir í skýrslu greiningardeildarinnar að lykilþáttur í fjárfestingarákvörðunum margra fyrirtækja sé styrkur krónunnar og væntingar um gengisþróun til lengri tíma. Sögulega séð hefur almenn atvinnuvegafjárfesting haldist nokkuð vel í hendur við gengisþróun krónunnar. Þannig hafa jafnan farið saman aukin fjárfesting og styrking krónunnar.

Bendir greiningardeildin á að ástæðuna fyrir þessu sambandi megi meðal annars finna í því að mjög stór hluti atvinnuvegafjárfestingar komi erlendis frá í gegnum innflutning. Gengisstyrking krónu geri því fjárfestingu ódýrari í krónum talið og því nýta margir sér þau tækifæri sem felast í sterkari krónu til að auka fjárfestingar.

Brugðist við háu raungengi með aukinni vélvæðingu

Deildin segir að líklegt sé að fjárfesting útflutningsfyrirtækja muni að einhverju leyti miða að því að draga úr mannaflaþörf, enda hafi launahækkanir hér á landi á framleidda einingu verið langt umfram launahækkanir þeirra landa sem við kjósum helst að bera okkur saman við. Ein afleiðingin gæti verið aukin sjálfvirkni.

Nauðsyn viðhalds og uppbyggingar innviða

Reiknar greiningardeildin með því að aukinn kraftur verði í fjárfestingu hins opinbera á næstunni. Í skýrslunni segir: „Að undanförnu hefur verið uppi mikil umræða um nauðsyn viðhalds og uppbyggingar ýmissa innviða, t.d. vegakerfis, veitukerfa, orkuflutningakerfa og opinberra bygginga. Í nýlegri skýrslu frá Samtökum iðnaðarins er því t.d. haldið fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða hér á landi sé um 370 ma.kr., eða um 11% af endurstofnvirði. Til samanburðar má nefna að opinber fjárfesting á árinu 2016 mældist um 65 ma.kr. Þörfin á endurbótum og viðhaldi er jafn aðkallandi innan sveitarfélaganna og á vettvangi ríkisins. Sveitarfélögin eru smám saman að auka fjárfestingar sínar og útlit er fyrir að þau muni gera svo áfram.“ Spáir deildin því að opinber fjárfesting aukist um 9% í ár og síðan um 15% á árinum 2019 og 2020.

Íbúðafjárfesting mun aukast

Í skýrslu Hagfræðideildar Landsbankans segir að talningar Samtaka iðnaðarins gefi besta mynd af stöðu nýbygginga á húsnæði. „Út frá nýjustu talningum telja samtökin að lokið verði við færri íbúðir á næstu árum en reiknað hafði verið með og spá þeirra fyrir árin 2017-2020 lækkaði úr tæplega 8.800 íbúðum í vor niður í 8.000 nú. SI telja að byrjað hafi verið á mun færri íbúðum í ár en reiknað var með og er ein meginástæðan talin vera flækjustig í opinbera kerfinu sem dragi mikið úr byggingarhraða,“ segir í skýrslu deildarinnar.

Spáir deildin því að íbúðafjárfesting muni aukast um 28% í ár, 20% aukningu á næsta ári, 15% á árinu 2019 og 10% á árinu 2020. Segir deildin að gangi þessi spá eftir mun íbúðafjárfesting fara yfir 5% af vergri landsframleiðslu (VLF) á árinu 2019 og upp í 5,4% 2020. Hlutur íbúðafjárfestingar yrði þá álíka og á árunum 2004-2005, en mun lægri en var á árunum 2006 og 2007.