Fréttasafn



15. des. 2016 Mannvirki

Á fundi SI á Ísafirði kom fram að mikil þörf væri fyrir nýjar íbúðir

Samtök iðnaðarins stóðu fyrir opnum fundi um byggingar- og mannvirkjamál í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gær. Fundurinn var vel sóttur en um 20 manns mættu. Í upphafi fundarins flutti Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, ávarp en hann stýrði jafnframt fundinum. Ásbjörn R. Jóhannesson, forstöðumaður rafiðnaðarsviðs SI, fór yfir fyrir hvað Samtök iðnaðarins standa og hvaða þjónusta og aðstoð stendur félagsmönnum til boða. Friðrik Á. Ólafsson, forstöðumaður byggingarsviðs SI, kynnti breytingar sem gerðar hafa verið á byggingarreglugerð og hvað hægt er að hanna og byggja í kjölfar þeirra breyting. Auk þess fór hann yfir samskipti við embættismenn. Þá kynnti Axel Rodriguez Överby, skipulags- og byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar, hvað væri framundan í skipulags- og byggingarmálum á svæðinu og ræddi samskiptamál við framkvæmdaaðila. 

Í lok fundarins var boðið upp á fyrirspurnir og umræður þar sem kom meðal annars í ljós að það stefnir í mikla þörf á nýjum íbúðum til að koma til móts við fjölmörg ný störf sem eru að verða til á svæðinu og mátti heyra á fundarmönnum að nú þegar er orðinn skortur á íbúðum.