Fréttasafn14. nóv. 2017 Almennar fréttir Menntun

Gervigreind til umfjöllunar á fundi IÐUNNAR og SI

Gervigreind verður til umfjöllunar á þriðja fundinum í fundarröð IÐUNNAR og Samtaka iðnaðarins um fjórðu iðnbyltinguna sem fram fer næstkomandi fimmtudag, 16. nóvember, kl. 8.30-10.00 í Vatnagörðum 20. Meiriháttar tækniframframfarir eiga sér nú stað sem munu hafa áhrif á öll störf í náinni framtíð. Starfshættir breytast og þjóðfélagið með. Tækifærin sem felast í þessum tækniframförum eru óteljandi og mikilvægt að öll fyrirtæki og starfsmenn grípi þau. Fundarstjóri er Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri hjá SI, og formaður stjórnar IÐUNNAR fræðsluseturs. Hér er hægt að skrá sig á fundinn.

Dagskrá

Kl. 8.30-9.00 ,,Gervigreindin fjöregg framtíðarinnar" - Yngvi Björnsson, prófessor í tölvunarfræði við HR

Í þessu erindi verður fjallað um hvað gervigreind er, hvernig hún hefur þróast, hver staðan er í dag, og hvað er framundan. Einnig verður lauslega fjallað um þau tækifæri og þær ógnanir sem felast í bættri gervigreindartækni.

Kl. 9.00-9.15  Gervigreind í stoðtækjum - Magnús Oddsson og Atli Örn Sverrisson, Össur hf.

Hvernig getur ný tækni á sviði skynjara og gervigreindar leitt til framþróunar á sviði stoðtækja?  Geta hugtök eins og „djúpnám“, „tauganet“, „skýþjónustur“ og „alnet hlutanna“ gagnast við þróun stoðtækja og þá hvernig.

Kl. 9.15-9.30 Sjálfvirki sölumaðurinn - Jón Heiðar Þorsteinsson, Iceland travel

Í þessum fyrirlestri er fjallað um hvernig er gervigreind og sjálfvirkni nýtt til að hámarka árangur í sölu- og markaðsstarfi. Gervigreind hefur nýst í að hámarka virkni markaðsherferða og auglýsinga á netinu.

kl. 9.30-10.00 Fyrirspurnir og umræður.

Hér er hægt að horfa á fundinn í heild sinni.