Fréttasafn11. ágú. 2017 Almennar fréttir Framleiðsla

Góðgæti úr illseljanlegu og útlitsgölluðu hráefni

Boðið var upp á góðgæti úr illseljanlegum og útlitsgölluðum vörum á viðburðinum Óhóf sem haldinn var í Petersen svítunni í Gamla bíói í gær. Viðburðurinn var innblásinn af matarsóun. Meðal þess sem boðið var upp á voru bruschettur úr dauðvona hráefnum og „Blóðuga Maríu“, áfengan og óáfengan drykk úr tómatsafa og fleiru. Í áfengu útgáfunni var notaður vodki sem er framleiddur úr mysu sem annars væri umhverfisvandamál. Að vodkaframleiðslunni standa félagsmenn Samtaka iðnaðarins, Foss distillery og Mjólkursamsalan. 

Árlega er sóað meira en 3,5 milljónum tonna af mat á Norðurlöndunum og er Ísland þátttakandi í samþykkt norrænu ráðherranefndarinnar þar sem stefnt er að sameiginlegu markmiði um minnkun matarsóunar.  

Að viðburðinum stóðu Umhverfisstofnun, Vakandi (Rakel Garðarsdóttir), Hrefna Sætran og Gamla bíó. Á myndunum má annars vegar sjá bruschetturnar og á hinni forsvarskonurnar Hrefnu Sætran og Rakel Garðarsdóttur.