Fréttasafn



11. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Gott orðspor eykur verðmæti vara

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, hvetur til þess í grein sinni sem birt var í Morgunblaðinu um helgina að vörumerkið Ísland verði ræktað betur. Hann segir að tímabært sé að ólíkir hagsmunaðilar komi saman, nýti frjóan jarðveg og leiti innblásturs hjá Íslandi. 

„Ímynd og orðspor þjóða hefur mikil áhrif á efnahag þeirra. Hvort tveggja getur aukið áhuga ferðafólks á að heimsækja land, ýtt undir eftirspurn eftir vörum og þjónustu, hvatt til áhuga hæfileikafólks á búsetu og störfum og eflt áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta. Sterk og jákvæð ímynd skapar verðmæt störf, ekki síst ef mikil fagþekking í framleiðsluiðnaði er líka til staðar. Við þær aðstæður verður víxlverkun í efnahagskerfinu, sem eykur verðmætasköpun og hagsæld enn frekar.“

Hann bendir á að í sumum löndum njóti framleiðendur góðs af heimalandinu í verðlagningu og nefnir dæmi um svissnesk úr sem eru dýrari en önnur og þýska bíla sem eru dýrari en sambærilegir frá öðrum löndum. Gott orðspor landa auki þannig verðmæti vara sem frá landinu koma. „Framleiðandi sem selur vörur sínar með slíku aukaálagi vegna landsins getur greitt hærri laun, fyrirtækið hans getur fjárfest í framþróun og verður áhugasamari vinnustaður fyrir vikið. Aukin verðmæti skapast í samfélaginu sem getur þar með boðið upp á aukin lífsgæði.“

Í greininni segir Sigurður að íslenskur framleiðsluiðnaður sé innblásinn af náttúrulegum og menningarsögulegum andstæðum. „Eldi og ís, þúsund ára fátækt og síðari tíma velsæld, plúsum og mínusum sem mætast og leysa úr læðingi ómældan sköpunarkraft. Slíkt getur svo sannarlega verið grundvöllur að aukinni eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu, iðnaðarvörum, ferðaþjónustu og sjávarafurðum svo eitthvað sé nefnt með tilheyrandi álagningu á mörkuðum heimsins, til hagsbóta fyrir þjóðina alla.“

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.