Fréttasafn



11. nóv. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Gullsmiðir afhentu Krabbameinsfélaginu styrk

Fulltrúar Félags íslenskra gullsmiða, sem er fagfélag innan SI, hafa afhent Krabbameinsfélaginu 1,8 milljónir króna sem söfnuðust vegna sölu á viðhafnarútgáfu af Bleiku slaufunni í október. Um var að ræða hálsmen úr silfri gert í takmörkuðu upplagi. Lovísa Halldórsdóttir og Unnur Eir Björnsdóttir frá Félagi íslenskra gullsmiða afhentu Kolbrúnu Silju Ásgeirsdóttur, kynningar- og fjáröflunarstjóra Krabbameinsfélagsins, styrkinn í gær í Húsi atvinnulífsins. Lovísa og Unnur Eir hönnuðu Bleiku slaufuna í ár að undangenginni hugmyndasamkeppni en þær lýsa formi slaufunnar þannig að hún  tákni stuðningsnetið sem mikilvægast er þeim konum sem greinast með krabbamein - fjölskylduna og samfélagið. Allur ágóði af sölu slaufunnar í ár rennur til kaupa á endurnýjuðum tækjabúnaði sem er ætlaður til leitar að brjóstakrabbameini.

Félag íslenskra gullsmiða samanstendur af 27 gullsmíðafyrirtækjum sem öll lögðust á eitt við að ná markmiði félagsins að selja viðhafnarútgáfuna í október. Arna Arnardóttir, formaður Félags íslenskra gullsmiða, segir ánægjulegt að gullsmiðir geti með þessum hætti stutt við starfsemi Krabbameinsfélagsins og um leið styrkt samstöðu meðal gullsmiða. „Að taka þátt í svona mikilvægu góðgerðarátaki sem snertir okkur öll þjappar okkur saman og sýnir að með góðri samvinnu getum við látið gott af okkur leiða. Það er gaman að segja frá því að þetta er í fimmta skipti sem félögin tvö hafa samstarf um hönnun Bleiku slaufunnar og sú hefð sem hefur skapast með samstarfinu er einstök í heiminum. Það eru fjölmargir sem safna slaufunni ár frá ári og hróður íslenskra hönnuða berst langt út fyrir landsteinana. Frá því samvinnan hófst hefur Félag íslenskra gullsmiða safnað tæpum 7 milljónum króna sem hafa runnið beint til Krabbameinsfélagsins.“

Á myndinni tekur Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir (t.v.), kynningar- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélagsins, við styrknum frá Lovísu Halldórsdóttur og Unni Eir Björnsdóttur sem hönnuðu Bleiku slaufuna í ár.