Fréttasafn



5. des. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Gullsmiðir kynna skartgripi

Félag íslenskra gullsmiða, FÍG, hefur gefið út bækling sem sendur hefur verið inn á heimilin í landinu þar sem hver gullsmiður innan félagsins kynnir sínar vörur. Í bæklingnum eru einnig upplýsingar um gull og silfur þar sem segir meðal annars að gull sé mótanlegast og teygjanlegast allra málma og henti því vel til framleiðslu skartgripa og skrautmuna. Hreinu gulli er venjulega blandað saman við aðra málma eins og silfur, kopar, platínu eða palladíum til að auka styrkleika þess. Magn gulls í málmblöndu er mælt með mælieiningunni karat þar sem eitt karat samsvarar einum hluta af 24 þannig að í 18 karata gullhring eru 18 hlutar af hreinu gulli. Hvítagull sem er mjög vinsælt að nota í skartgripi er blanda af gulli og palladíni, nikkel og/eða silfri. Við blönduna hverfur gullni liturinn úr gullinu og það verður hvítt. Þá er einnig minnst á platínu en það er frumefni sem er dýrari og þyngri í sér en gull og mjög vinsælt í skartgripagerð. Silfur er líkt og gull sveigjanlegt og þjált enda er silfrið vinsælt hráefni í ýmsa skrautmuni. Algengasta silfurblandan er sterling silfur sem er 92,5% silfur. 

Hér er hægt að skoða bæklinginn frá FÍG.