Fréttasafn



6. sep. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Hægt að spara stórfé með einfaldara og skilvirkara kerfi

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, víkur að mikilvægi góðrar umgjarðar fyrir byggingariðnaðinn í viðtali Viðskiptablaðsins. „Áformum stjórnmálamanna um frekari íbúðauppbyggingu þarf auð­vitað að fylgja eftir með því að auka skilvirkni i kerfinu, en við höfum séð of mörg dæmi um að afgreiðsla mála hjá byggingaryfirvöldum hefur gengið allt of hægt fyrir sig. Það kostar samfé­lagið stórfé. Ég held því fram að þetta sé kerfislægur vandi sem þurfi að taka á þannig að orð og efndir fari saman,“ segir Sigurður. 

Þá segir hann í viðtalinu að í þessu samhengi sé áhugavert að skoða embætti ríkisskattstjóra, sem sé mikil fyrirmyndarstofnun þegar kemur að samskiptum við borgarana. „Fyrir mörgum árum þurftu allir að fylla út skattframtöl á pappír, sem tók heilmikinn tíma. Finna þurfti gögn hér og þar, skrifa þetta allt niður og reikna út og fylla inn. Í dag er meginþorri landsmanna hins vegar einungis nokkrar mínútur að ganga frá skattframtalinu. Ég sakna þess að það sé ekki meiri nýsköpun hjá hinu opinbera þegar það kemur að þessum þáttum. Þannig væri hægt að spara stórfé með einfaldara regluverki og skilvirkara kerfi. Margar stofnanir gætu svo sannarlega lært af skattinum í því.“ 

Viðskiptablaðið, 31. ágúst 2017.