Fréttasafn



23. ágú. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Hætta á að framleiðsla og störf fari úr landi

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að íslenskir framleiðendur hafi gripið til uppsagna og verðhækkana til að mæta auknum kostnaði sem meðal annars komi til vegna hárra launa í alþjóðlegum samanburði. Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, sem segir að mörg fyrirtæki hafi gripið til hagræðingaraðgerða og sagt upp starfsfólki síðastliðið ár; Oddi sagði 86 starfsmönnum upp við upphaf árs þegar fyrirtækið hætti innlendri framleiðslu á plast- og bylgjuumbúðum, CCP sagði upp 30 starfsmönnum veturinn 2017 og Ölgerðin sagði upp 15 starfsmönnum fyrir um ári. „Um þessar mundir er gerð enn ríkari krafa um hagræðingu en áður. Hættan er sú að framleiðsla og störf fari úr landi ef þessi þróun heldur áfram, “ segir Sigurður. 

Kostnaður hækkar mikið vegna samspils launahækkana og gengisþróunar

Í fréttinni bendir Sigurður á að íslensk framleiðslufyrirtæki eigi yfirleitt í erlendri samkeppni, hvort sem það er í útflutningi eða í samkeppni við erlendar vörur hérlendis og að efnahagslegur óstöðugleiki og sveiflur í gengi krónu geri fyrirtækjum erfitt fyrir að skipuleggja reksturinn til lengri tíma. „Samspil launahækkana og gengisþróunar á undanförnum árum hafa gert það að verkum að kostnaður hefur hækkað mikið. Laun mæld í erlendri mynt hafa hækkað gríðarlega og eru há í alþjóðlegum samanburði. Við bætist að skattar á fyrirtæki hérlendis eru háir í alþjóðlegum samanburði. Þar munar mestu um tryggingagjaldið sem er skattur á laun. Auk þess skapaði lágt raforkuverð hérlendis landinu samkeppnisforskot en nú hefur dregið úr þeim mun. Þegar þetta leggst saman er myndin nokkuð skýr. Fyrirtæki verða að bregðast við með því að hækka verð eða fækka starfsmönnum eins og kom raunar fram í könnun sem við gerðum meðal okkar félagsmanna.“

Þá segir Sigurður í fréttinni að staðan sé sú að það sé lítið sem ekkert til atvinnurekenda að sækja nú þegar styttist í kjaraviðræður á milli launaþegahreyfinga og atvinnulífsins. 

Á vef Fréttablaðsins er hægt að lesa fréttina í heild sinni.