Fréttasafn



2. maí 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Heimsókn í geoSilica Iceland

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, heimsótti geoSilica Iceland fyrir skömmu og hitti þar Fidu Abu Libdeh, stofnanda fyrirtækisins sem er með Sigurði á myndinni. 

GeoSilica var stofnað árið 2012 af Fidu og Burkna Pálssyni, ásamt Ögnum ehf., út frá lokaverkefnum Fidu og Burkna í orku- og umhverfistæknifræði við Háskóla Íslands. Markmið fyrirtækisins er að framleiða hágæða kísilríkar heilsuvörur úr jarðhitavatni jarðvarmavirkjana á Íslandi til að stuðla að bættri heilsu fólks. Í lok árs 2014 kom fyrsta varan frá geoSilica á markað og nú eru nokkrar vörur komnar á markað með mismunandi virkni en kísilsteinefnið er í vökvaformi ætlað til inntöku. Að undanförnu hefur verið unnið að því að koma vörunum á erlendan markað. 

Affallsvatn Hellisheiðarvirkjunar er nýtt en um er að ræða auðlind sem er uppfull af steinefnum. Fyrirtækið hefur þróað tveggja þrepa framleiðsluaðferð á kísilsteinefni sínu. Í fyrra skrefinu er styrkur kísils í skiljuvatninu aukinn margtugfalt án þess að breyta efnasamsetningu þess að öðru leyti. Í seinna skrefinu er skiljuvatninu smá saman skipt út fyrir hreint grunnvatn af svæðinu þannig að lokaafurðin er mjög smásær kísill í hreinu grunnvatni.