Fréttasafn



6. jan. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Hlutfall sykraðra gosdrykkja að minnka

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um breytingar sem hafa orðið á gosdrykkjaneyslu frá sykruðum í sykurlausa drykki. Þar segir að hlutfall sykraðra gosdrykkja hafi minnkað og sala á kolsýrðu vatni aukist hratt í íslenskum stórmörkuðum. Þetta sýna tölur Markaðsgreiningar/AC Nielsen frá Samtökum iðnaðarins. Í fréttinni kemur fram að frá árinu 2012 hafi vægi sykraðra drykkja hér á landi minnkað úr 59% í 48%. Um leið hafi vægi ósætra gosdrykkja og drykkja með sætuefnum aukist úr 41% í 51%. Langmest aukning hefur verið í sölu á kolsýrðum vatnsdrykkjum. Sala á slíkum drykkjum hefur vaxið um 82% frá 2011. Sala á sykruðum gosdrykkjum hefur minnkað um 12,3% á sama tíma en neysla á sykurlausum gosdrykkjum haldist nær óbreytt á sama tímabili. Upplýsingar sem byggðar eru á tölum Markaðsgreiningar/AC Nielsen sýna að sala á sykruðum gosdrykkjum hefur minnkað um 15% frá 2010. Neysla á gosdrykkjum með sætuefnum hefur minnkað um 6% en sala á sódavatni hefur aukist um 83% á sama tíma. Þá kemur fram að SI bendi á að sykurneysla á hvern íbúa hér á landi hafi minnkað. Árið 1967 neytti hver Íslendingur 51,7 kg af sykri að meðaltali. Sykurneyslan var komin niður í 41,8 kg/mann árið 2014, samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands. Því sé öfug fylgni á milli heildarneyslu sykurs á mann og hækkunar líkamsþyngdar. 

Morgunblaðið, 6. desember 2017. Frétt á mbl.is.