Fréttasafn11. okt. 2017 Almennar fréttir

Hugvit verður drifkraftur framfara á 21. öldinni

Hugvit verður drifkraftur framfara á 21. öldinni á sama hátt og hagkvæm nýting náttúrauðlinda var drifkraftur framfara á Íslandi á 20. öldinni. Fjórða iðnbyltingin er hafin og fram undan eru tækniframfarir sem munu hafa mikil áhrif á íslenskt atvinnulíf. Þetta eru upphafsorð Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í grein hans í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag. 

Í greininni víkur Sigurður að heildstæðri stefnumótun og segir að stefnumótun sé mikilvægasta verkefni stjórnvalda hverju sinni. Horfa þurfi á viðfangsefnin frá ýmsum áttum því samkeppnishæfni byggi á mörgum stoðum. Til að móta heildstæða stefnu þurfi að horfa til margra ólíkra þátta líkt og menntunar, innviða, starfsumhverfis og nýsköpunar. Hann bendir á að hið opinbera eyði 45 krónum af hverjum 100 í hagkerfinu og með heildstæðri nálgun og skýrri sýn megi nýta þessa fjármuni sem allra best. Hann segir að Ísland eigi að vera í fremstu röð í heiminum þegar kemur að nýsköpun, enda mun hugvit og hagvöxtur haldast í hendur. 

Þá segir hann að það verkefni bíði nýrrar ríkisstjórnar að marka skýra stefnu svo íslenskir námsmenn nútímans, börn, unglingar og fullorðnir, verði reiðubúnir til að mæta kröfum framtíðarinnar. Á öllum skólastigum þurfi að leggja áherslu á vitneskju um tækniþróun, skapandi hugsun, greiningarhæfni og lausnamiðaða nálgun enda muni það skipta meira máli á tímum aukinnar sjálfvirkni en áður. Þá þurfi að efla og breyta grunn- og endurmenntun kennara með sköpun, lausnamiðun, forritunarskilning og tækni að leiðarljósi. Forritun sé mikilvægur liður í þeim samfélagsbreytingum sem eru að verða og eigi þess vegna að vera skyldufag í grunn- og framhaldsskólum.

Hægt er að nálgast greinina í heild sinni á Vísi