Fréttasafn



20. nóv. 2015 Iðnaður og hugverk

Hver ræður því hvað vara kostar?

 „Hver ræður því hvað vara kostar?“ spurði Páll Kr. Pálsson, framkvæmdastjóri Glófa þegar rætt var um greiningu á framleiðslukostnaði á fundaröð um framleiðni hjá SI.

Svarið er að það er markaðurinn og framleiðandinn þarf að haga rekstrinum þannig að hann standist kröfurnar. Þegar kostnaður við að framleiða vöru er reiknaður þarf að þekkja allar bakgrunnsbreytur vel, kostnað við hráefnisinnkaup, húsnæði, lagerhald, tækjakaup, rekstur og fyrst og fremst launakostnað. Með því að halda gott bókhald um þessa hluti má reikna nákvæmlega hve mikið fer í hverja vörutegund. Góð þekking á kostnaðarbreytum nýtist til að rýna tækifæri til umbóta og ná niður kostnaði.

Páll tók það fram að launakostnaður vegi þungt í verði vöru og samkeppni við láglaunasvæði í Asíu sé erfið fyrir framleiðslu á Íslandi. Til að vera samkeppnishæfur við þau verð þurfa framleiðslufyrirtæki hér á á landi að einblína á að tæknivæða sig og fækka starfsfólki. Einnig megi hagræða með betri nýtingu á hráefni og þar sem mikilvægt er að draga úr sóun. Ef ekki næst að halda framleiðslukostnaði innan þeirra marka sem útsöluverð vörunnar ber standa menn frammi fyrir því að annað hvort hætta framleiðslu hennar eða breyta framleiðslunni.

Í lyfjaframleiðslu er hátt hlutfall starfsmanna í gæðamálum og miklar kröfur eru um skráningar, hreinleika, algeran aðskilnað milli lota og staðfestar gæðamælingar. Jón Gunnar Jónsson, framkvæmdastjóri Actavis á Íslandi sagði að fyrirtækið framleiði 1500 – 2000 vörunúmer og því fari mikill tími í þrif á milli lota. Það geri samkeppni erfiða gagnvart fyrirtækjum sem framleiða fáar vörur eða jafnvel einungis eina vöru samfleytt. Góð framleiðslu og kostnaðarstýring skiptir því miklu máli. Framleiðslukostnaður er gerður upp í hverjum mánuði og samanburður gerður á áætlunum miðað við frammistöðu. Framleiðni vinnu er mæld með því að skrá afhendingar á tíma (OTIF) og framleiðslu sem er rétt í fyrstu tilraun (RFT) Actavis hefur lagt mikla vinnu í straumlínustjórnun og reynt og prófað sig áfram með öll tæki sem til eru í þeirri verkfærakistu. Gott skipulag á vinnusvæðum, einföldun ferla, stöðluð vinnubrögð og sjónræn stjórnun virka vel til að ná fram umbótum en Jón Gunnar tók það einnig fram að vikt launakostnaðar við framleiðslu er gífurlega mikil. 

Guðmundur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri hjá Á. Guðmundsson tók í sama streng og sýndi dæmi um vörur hjá fyrirtækinu og hvernig greining framleiðslukostnaðar fer fram á þeim. Mikilvægt er að halda vel utan um alla kostnaðarliði sem tengjast viðkomandi vöru en jafnframt endurskoða, mæla og uppfæra allar upplýsingar við hverja framleiðslulotu til að meta hvort þurfi að breyta verði.