Fréttasafn



27. jún. 2018 Almennar fréttir Menntun

Iðn- og verknám skiptir miklu máli upp á framtíðina

„Lög og reglur eiga að auðvelda fólki að finna sína fjöl í menntakerfinu, ekki að hindra það,“ segir mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, í Morgunblaðinu í dag og bætir við að iðn- og verknám skipti mjög miklu máli upp á framtíðina. Rætt er við ráðherra í tengslum við fréttir þess efnis að maður með sveinspróf í húsasmíði hafi ekki fengið inngöngu í lögreglunám við Háskólann á Akureyri þar sem hann hafi ekki lokið stúdentsprófi. „Það þarf að skoða það almennt hvort verið sé með sanngjarna nálgun, ég vil að tækifærin séu til staðar fyrir þá sem eru með iðn- og starfsmenntun.“ 

Lilja-AlfredsdottirÍ frétt Morgunblaðsins segir Lilja jafnframt að varðandi mat á prófgráðum og starfsreynslu umsækjenda hafi skólarnir ákveðið sjálfstæði við að meta það en þeir þurfi jafnframt að fara eftir lögum og reglum sem Alþingi og framkvæmdavaldið setja og að undirbúningur menntastefnu til ársins 2030 taki mið af því. „Við erum á fleygiferð inn í framtíð þar sem eru að eiga sér stað miklar breytingar og þar er þörf fyrir fjölbreytta menntun. Ef við þurfum að breyta reglum til að vera samkeppnishæf, þá gerum við það,“ segir Lilja í samtali við blaðamann, en Ísland skeri sig úr því einungis 32% nemenda á framhaldsskólastigi séu í iðnnámi á móti nálægt 50% í öðrum Evrópuríkjum. „Ég fagna því að innritun nemenda í verk- og starfsnámsbrautir framhaldsskólanna hefur aukist um 33% frá í fyrra, en verið er að bæta aðgengi og styrkja umgjörð þesskonar náms.“ 

Morgunblaðið, 27. júní 2018.