Fréttasafn



17. ágú. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Innlendir framleiðendur verða fyrir áhrifum af komu Costco

„Einhverjir framleiðendur horfa fram á mjög breytt landslag og við erum að sjá það að sumt af því sem er verið að selja í Costco er selt undir kostnaðarverði.“ Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær þar sem rætt var um áhrif Costco á innlenda framleiðendur en dæmi eru um að þekkt íslenskt vörumerki séu seld undir kostnaðarverði. „Costco kemur inn á markaðinn af miklum krafti þannig að það skapar talsverða óvissu á markaðnum. Rykið á ennþá eftir að setjast og við vitum ekki hver langtímaáhrifin verða.“ Þegar Sigurður er spurður hvort búast hefði mátt við þessu svarar hann því að almennt séð hafi ekki verið búist við því að Costco mundi selja vörur undir kostnaðarverði en kannski sé það eitthvað sem búast megi við þegar nýr aðili komi inn á markaðinn. „Hann gerir það til að ná markaðsstöðu en við megum heldur ekki gleyma því að það eru ekki allar vörur ódýrari í Costco, sumar vörur eru dýrari í Costco en í öðrum verslunum, þetta er ekki heilt yfir línuna.“

Jákvæð áhrif af komu Costco

Í viðtalinu bendir Sigurður á að það séu einnig jákvæð áhrif af komu Costco þar sem það geti falist tækifæri fyrir íslenska framleiðendur að koma vörum sínum að í Costco. „Við megum ekki gleyma því að Costco starfar ekki bara hér á landi heldur er alþjóðleg verslunarkeðja sem er mjög stór. Það gætu verið tækifæri fyrir íslenska framleiðendur að koma sínum vörum að á öðrum mörkuðum.“ Hann segir jafnframt að einhverjir af félagsmönnum SI hafi óskað eftir samstarfi við Costco og nú þegar sé nokkur fjöldi þeirra komin í samstarf. Dæmi um íslenskar framleiðsuvörur sem eru seldar í Costco er sælgæti, íslenskt kjöt og mjólkurvörur. „Það er eitthvað samstarf komið á. Svo á eftir að sjá hvernig það þróast og hvort það nær yfir á aðra markaði. Í því gætu auðvitað verið fólgin mikil tækifæri fyrir innlenda framleiðendur.“

Íslenskir framleiðendur kvarta ekki undan samkeppni

Sigurður segir í viðtalinu að samkeppni sé af hinu góða og íslenskir framleiðendur kvarti ekki undan samkeppni en hún þarf að vera á eðlilegum forsendum. Aðspurður hvort verður eitthvað brugðist við því að Costco sé að selja vörur undir kostnaðarverði: „Ég skal ekki segja um það hvort yfirvöld muni skoða það eitthvað sérstaklega. En við vitum heldur ekki hvort þetta muni vara lengi eða hvort þetta sé bara á meðan Costco er að festa sig í sessi hér á Íslandi eða hvort þetta er ástand sem má búast við til langframa.“ Hann segir jafnframt að áhrifin séu þegar komin fram að einhverju leyti en að það verði að sjá hvernig þróunin verður.

Nánar: Bylgjan, 16. ágúst 2017. Vísir, 16. ágúst 2017.