Fréttasafn



18. júl. 2018 Almennar fréttir

Ísland fellur um 10 sæti á nýsköpunarmælikvarða GII

Ísland fellur um 10 sæti í nýsköpunarmælikvarðanum Global Innovation Index en samkvæmt mælingu fyrir 2018 er Ísland nú í 23. sæti en var á síðasta ári í 13. sæti yfir þau ríki sem standa fremst í nýsköpun. Á toppnum trónir Sviss sem einnig var í fyrsta sæti á síðasta ári. Holland er í 2. sæti og Svíþjóð í 3. sæti og hafa löndin skipt um sæti milli ára en á síðasta ári var Svíþjóð í 2. sæti og Holland í 3. sæti. Bretland er í 4. sæti og fer upp fyrir Bandaríkin sem er nú komið í 6. sæti. Singapore er í því 5. 

Hin Norðurlöndin raðast þannig að Finnland er í 7. sæti og fer upp um eitt um sæti. Danmörk er í 8. sæti og fellur niður um tvö sæti frá síðustu mælingu. Noregur er áfram í 19. sæti listans. Botnsæti listans vermir Yemen með lægsta skor af þeim126 löndum sem eru mæld. 

Þetta er í ellefta skiptið sem listinn er tekinn saman en að framkvæmdinni standa Cornell University, INSEAD og World Intellectual Property Organization (WIPO).

Hér er hægt að skoða mælinguna fyrir Ísland.