Fréttasafn



2. feb. 2017 Nýsköpun

Íslenska ánægjuvogin afhent í dag

Í dag, 2. febrúar, voru niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2016 kynntar og er þetta átjánda árið sem ánægja íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti. Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 19 fyrirtæki í 6 atvinnugreinum og byggja niðurstöður á 200-1.178 svörum viðskiptavina hvers fyrirtækis.

Líkt og undanfarin þrjú ár er viðurkenning einungis veitt þeim fyrirtækjum sem eru með tölfræðilega marktækt hæstu einkunnina í viðkomandi atvinnugrein, þ.e. þar sem segja má með 95% vissu að viðskiptavinir fyrirtækisins með hæstu einkunnina séu að jafnaði ánægðari en viðskiptavinir fyrirtækisins með næsthæstu einkunnina. Í ár var afhent viðurkenning á fjórum mörkuðum, þar sem Atlantsolía fékk 74,4 stig af 100 mögulegum, Nova fékk 72,1 stig, Orka náttúrunnar fékk 65,5 stig og Íslandsbanki fékk 65,2 stig. Efstu fyrirtækjum á mörkuðum þar sem ekki var marktækur munur á efsta og næstefsta sæti voru ekki veittar viðurkenningar en hins vegar var fulltrúum þessara fyrirtækja færður blómvöndur í viðurkenningarskyni. Þeir markaðir þar sem ekki var marktækur munur á milli hæstu og næsthæstu einkunnar voru tryggingafélög og smásöluverslanir.
Þá var ekki marktækur munur á Atlantsolíu sem var með hæstu einkunnina á heildina litið og Nova sem var með næsthæstu einkunnina. 

Einkunnir allra birtra fyrirtækja í hverri atvinnugrein má sjá á www.stjornvisi.is