Fréttasafn



26. jan. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Íslenska veikin

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, skrifar pistil í Viðskiptablaðinu í dag:

Það er út af fyrir sig efni í góðan pistil að velta því upp hvort íslenska veikin sé til og þá hvaða eðliseinkennum slík veiki lýsir. Er hún ef til vill staðfesting á hegðun Bjarts í Sumarhúsum sem lagði sjálfstæði og persónulegt frelsi ofar öllu? Eða felst hún í orðum stórskáldsins um að Íslendingar „leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls“. Ekki skal um þetta dæmt hér, heldur er meiningin að velta upp hagfræðilegu fyrirbæri, hollensku veikinni, í íslensku samhengi. Hollendingar urðu fyrir því á sjöunda og áttunda áratugnum að mikil olíu- og gasvinnsla tók yfir efnahagsþróunina á þann hátt að gengi gyllinisins styrktist verulega. Það hafði þau áhrif að aðrir útflutningsatvinnuvegir réðu ekki við aðstæðurnar og misstu mikinn þrótt. Þegar svo gasið þraut og engar frekari útflutningstekjur var að hafa úr þeirri áttinni voru góð ráð dýr og við tók kvalafull aðlögun fyrir hollenska hagkerfið. Þótt gengisstyrking íslensku krónunnar undanfarin misseri og áhrif ferðaþjónustu þar á sé umhugsunarefni, er mikilvægt að hafa í huga að líkingin nær ekki alla leið.

Afleiðingar hækkandi gengis

Ferðaþjónustan og raunar vel flestar aðrar útflutningsgreinar eru næmar fyrir gengi krónunnar og við eigum eftir að sjá neikvæðar afleiðingar hækkandi gengis á auðlindadrifnar greinar öfugt við það sem gerðist í Hollandi. Hitt er hins vegar annað mál að mjög líklegt er að auðlindadrifnar útflutningsgreinar þoli hærra gengi en aðrar. Það getur framkallað atburðarás þar sem auð­ lindagreinarnar fá aukið vægi á kostnað hinna, sem gerir atvinnulífið fábrotnara, sveiflukenndara og með meira vægi á láglaunastörf. Það er ekki sannfærandi framtíðarsýn. Á hverju ári á síðustu tuttugu árum hafa nánast alltaf fleiri Íslendingar flutt frá landinu en til þess. Ekki nóg með það því á síðustu 3-4 árum hafa Íslendingar streymt út þrátt fyrir að laun og kaupmáttur hafi hækkað mikið og atvinnuleysi sé í lágmarki. Tölurnar sýna að fyrir hvern Íslending sem fer frá landinu eru þrír erlendir starfsmenn að koma til landsins. Það virðist sem erlendir ríkisborgarar sem hingað koma hafi helst verið að sækja í störf í ferðaþjónustunni og byggingariðnaðinum. En það er erfiðara að sjá hverjir fara héðan og hvers vegna þó það séu vísbendingar um að það sé helst vel menntað ungt fólk. Það má leiða að því líkum að unga fólkið sé að leita að tækifærum erlendis vegna þess að það finnur ekki tækifærin við hæfi á innlendum vinnumarkaði. Óhætt er að draga þá ályktun að fólk eltir uppi góð laun og áhugaverð störf. Það fer einfaldlega annað ef þau er ekki að finna í nægilega miklum mæli hér. Það er einnig nauðsynlegt að velta fyrir sér hvaða áherslur við höfum þegar við markaðssetjum landið sem áhugaverðan stað til fjárfestinga í atvinnurekstri. Undanfarna áratugi hefur verið langmest áhersla á stórar orkutengdar fjárfestingar, þótt fjölbreytnin hafi aukist hin síðari ár. Næstu misseri og ár verðum við að leggja miklu meiri áherslu á að laða til okkar starfsemi í þekkingardrifnum greinum og þá þurfum fleiri smærri verkefni en áður hefur þekkst, en um leið verkefni sem eiga mikla vaxtarmöguleika.

Dómur sögunnar

Það er engum blöðum um það að fletta að við viljum ekki íslenska veiki og ekki einu sinni snert af henni. Það er gríðarlega mikilvægt að fjölbreyttur útflutningur þrífist hér á landi og við byggjum ekki útflutning eða alþjóðlega starfsemi eingöngu á nátt­ úruauðlindum. Fjórða stoð­ in, hugverkaiðnaður, hefur vaxið í umfangi á undanförnum árum og mikilvægt er að sú þróun haldi áfram og verði varanleg. Til þess að svo megi verða þarf efnahagsumhverfi hér að standast samanburð við það besta sem þekkist, gengis- og peningastefna þarf að ná markmiðum um stöðugleika og vinnumarkaður og starfsumhverfi þarf að vera alþjóðlegra. Við viljum varla að dómur sögunnar verði að íslenska veikin felist í því að unga fólkið okkar leiti í stöðugt auknum mæli eftir tækifærum annars staðar.

Viðskiptablaðið, 26. janúar 2017.