Fréttasafn



23. apr. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Íslenskur matvælaiðnaður með beinan aðgang að 3 milljónum

Við Íslendingar erum aðeins liðlega 340.000 en útlit er fyrir að íslenskur matvælaiðnaður hafi beinan aðgang að 3.000.000 erlendra neytenda á hverju ári. Hvar er betra að byrja í markaðssetningu íslenskra matvæla en einmitt hér heima í túnfætinum. Ferðamennirnir okkar eru útflutningur. Við matvælaframleiðendur megum ekki láta þennan vaxtarsprota renna okkur úr greipum. Við verðum að tryggja það að okkar útflutningur á mat hefjist hér í túngarðinum heima. Við verðum að fá okkar erlenda gesti til að neyta innlendrar framleiðslu í auknum mæli. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns SI, á fundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar fyrir skömmu. 

Ísland matarkista norðursins

Í máli Guðrúnar kom jafnframt fram að vaxtarmöguleikar greinarinnar liggi í því að tengja saman matvælaiðnaðinn og ferðamannaiðnaðinn. „Þeir ferðamenn sem hingað koma og kynnast okkar frábæru vörum koma til með að verða neytendur en ekki síður sendiherrar okkar út um víða veröld. Ísland verður aldrei magnframleiðandi á matvöru í alþjóðlegum samanburði. Tækifæri okkar felast í að finna réttar smugur. Við keppum ekki í verði en eigum að nýta okkur sérstöðu og hámarksgæði. Mikilvægt er að finna kaupendur af réttri stærð sem við getum boðið hámarksþjónustu. Ef rétt er á málum haldið gæti Ísland orðið þekkt vörumerki út um allan heim fyrir að vera matarkista norðursins.“

Rússnesk rúlletta að flytja inn ferskt kjöt

Hún sagði mikilvægt að hlúa að sérstöðunni sem felst í hreinleika þeirra vara sem við framleiðum. „Hér er allur matur framleiddur úr hreinu vatni, hér eru loftgæði mikil bæði fyrir menn og dýr og hingað til höfum við með markvissri vinnu og eftirliti komið því svo við að lyfjanotkun í dýrarækt er með því lægsta sem þekkist á byggðu bóli sem og dýrasjúkdómar. Þetta er sérstaða sem aðrar þjóðir geta ekki státað sig af. Því skýtur það skökku við að nú eigi að hefja hér rússneska rúllettu með innflutningi á fersku kjöti. Við eigum frábær fyrirtæki allt í kringum landið sem á hverjum degi framleiða framúrskarandi vöru hvort sem það er kjöt eða fiskur, mjólk eða bjór, brauð eða ís.“

GH--Bunadarsamband-Eyjafjardar-april-2018