Fréttasafn



21. sep. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Jarðvinnuverktakar mikilvægir í uppbyggingu innviða

Það er gífurleg uppsöfnuð þörf þegar kemur að innviðaframkvæmdum í landinu. Jarðvinnuverktaka er að mörgu leyti hryggjarstykkið í uppbyggingu innviða, t.d. þegar kemur að vegagerð. Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga gáfu út skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi fyrir skömmu þar sem kemur meðal annars fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf þjóðvega og sveitarfélagavega nemur samtals um 120 milljörðum króna. Þá eru fram undan gífurleg tækifæri í hröðum tækniframförum sem leitt geta til aukinnar framleiðni í greininni. Þetta segir Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, í sérblaði um vinnuvélar sem fylgir Morgunblaðinu í dag. 

Stórt hagsmunamál að ná stöðugri markaði

Í hlutverki viðskiptastjóra vinnur Eyrún náið með fjölmörgum aðildarfélögum og starfsgreinahópum, líkt og Félagi vinnuvélaeigenda, Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Mannvirki – félagi verktaka og Samtökum arkitektastofa. Hún segir það vera mjög áhugavert og skemmtilegt að starfa í þágu byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar. „Ég er ný í þessu starfi og er sífellt að læra eitthvað nýtt en starfið er mjög fjölbreytt og ég vinn með ólíkum aðildarfélögum innan samtakanna. Óstöðugt starfsumhverfi er einkennandi fyrir greinina en sveiflurnar eru mun meiri en almennt gengur og gerist í hagkerfinu. Það er stórt hagsmunamál að ná stöðugri markaði. Verkefnin eru annars fjölmörg og tækifærin sömuleiðis.“ 

Nýliðun hefur verið of lítil undanfarin ár

Eyrún segir frá því í viðtalinu að hún hafi farið ásamt formanni Félags vinnuvélaeigenda á fund í Helsinki þar sem fulltrúar systursamtaka Félags vinnuvélaeigenda af Norðurlöndunum hittust og ræddu stöðu greinarinnar í hverju landi. „Þetta er árlegur fundur og að þessu sinni var aðalumfjöllunarefnið nýliðun í greininni. Fulltrúar Norðurlandanna höfðu sömu sögu að segja í þessum efnum en nýliðun hefur verið allt of lítil undanfarin ár. Þetta er málefni sem Félag vinnuvélaeigenda hefur nú sett í forgang. Hér á landi skortir t.d. tengingu inn í menntakerfið en sænsku systursamtökin okkar hafa átt samstarf við skólana um verklegt nám þar sem kennt er að stjórna vinnuvélum. Norðmenn eru einnig með samstarf í tengslum við nemendur sem hætta í námi og fyrirtækin taka á móti þeim.“ 

Þurfum að auka aðsókn í iðn- og verknnám

Eyrún segir að innan Samtaka iðnaðarins séu 1.400 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda og séu samtökin því stærstu samtök atvinnurekenda hér á landi. „Samtökin beita sér fyrir eflingu íslensks iðnaðar og samkeppnishæfni hans en það varðar ekki eingöngu atvinnulífið heldur samfélagið allt. Fjögur helstu áherslumál samtakanna eru menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi en það hefur sýnt sig að þessi málefni geta ráðið mestu um samkeppnishæfni ríkja. Menntun er forsenda góðra lífskjara, innviðirnir eru lífæðar samfélagsins, nýsköpun er ein meginforsenda verðmætasköpunar og gjaldeyrisöflunar og starfsumhverfi fyrirtækja þarf að vera skilvirkt, hagkvæmt og stöðugt.“ 

Í viðtalinu segir Eyrún jafnframt að það sé gríðarlega mikilvægt að við sem þjóð áttum okkur á og viðurkennum mikilvægi iðn- og verknáms í samfélaginu. „Það er baráttumál hjá Samtökum iðnaðarins að hindranir séu fjarlægðar úr vegi þeirra sem ákveða að stunda slíkt nám en við sjáum því miður dæmi þess að möguleikar einstaklinga til áframhaldandi náms séu þrengdir ef viðkomandi eru ekki með hefðbundið stúdentspróf. Iðnnám er ekki síðri menntun og það er alveg ljóst að við þurfum að auka aðsókn í iðn- og verknám til að mæta þörfum vinnumarkaðar til framtíðar. Það er hluti af því að efla samkeppnishæfni okkar að búa einstaklinga vel undir störf í samfélaginu.“ 

Morgunbladid-21-09-2018

Morgunblaðið, 21. september 2018.