Fréttasafn



28. mar. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Kallar eftir eigendastefnu ríkisins

Í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að raforkuverð skapi ekki lengur það samkeppnisforskot sem það gerði. Til marks um það er lækkun á heildsöluverði á raforku í Norður-Evrópu á síðustu árum og að orkufrekar atvinnugreinar í flestum löndum Norður-Evrópu hafi verið undanþegnar sköttum á raforku. 

Sigurður segir að verð raforku Landsvirkjunar hafi ekki fylgt þessari þróun en fyrirtækið sé ráðandi á raforkumarkaði hér á landi með yfir 70% hlutdeild markaðarins. Í greininni kemur fram að forstjóri Ölgerðarinnar hafi upplýst á Iðnþingi nýlega að fyrirtækið greiði nú 87% meira fyrir hverja kílóvattstund af raforku en árið 2012. Þessi hækkun sé langt umfram almennar verðlagshækkanir á tímabilinu. 

Í grein sinni kallar Sigurður eftir eigendastefnu ríkisins þar sem Landsvirkjun sem er stærsta orkufyrirtækið, sé í ríkiseigu. Hann segir að eigandinn hafi ekki myndað sér sýn á framangreinda þróun með formlegum hætti. Stjórnmálamenn þurfi að svara því hvort Ísland eigi að dragast aftur úr í samkeppni milli þjóða með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenskan iðnað og þau störf og verðmæti sem hann skapar. Sigurður segir að forsenda þess að orkustefna sé mótuð sé skýr atvinnustefna fyrir Íslands sem þurfi að móta og núna sé tíminn til þess. 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.