Fréttasafn



11. nóv. 2016 Almennar fréttir Menntun

Keppt til úrslita í Boxinu um helgina

Keppt verður til úrslita í Boxinu - Framkvæmdakeppni framhaldsskólanna í Háskólanum í Reykjavík á morgun 12. nóvember kl. 9-17 en að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Sigurvegarar keppninnar verða krýndir kl. 16.45. 

Forkeppnin var haldin í lok október og tóku 21 lið frá 13 skólum þátt. Átta lið komust áfram í aðalkeppnina frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, Menntaskólanum í Reykjavík, Tækniskólanum, Kvennaskólanum, Menntaskólanum að Laugarvatni, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Menntaskólanum í Kópavogi og Fjölbrautaskóli Suðurlands. 

Í úrslitunum á laugardaginn fara fimm manna lið frá hverjum skóla í gegnum fjölbreytta þrautabraut sem reynir á bæði á hugvit og verklag. Liðin fara á milli stöðva og fá hálftíma til að leysa hverja þraut. Þrautirnar eru settar saman af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna HR. Fyrirtækin sem koma að gerð þrautanna í ár eru CCP, ÍAV, Marel, Matís, ORF Líftækni, Orkuvirki, Trefjar og Verkís.

Þetta er í sjötta sinn sem Boxið er haldið. Markmið með Boxinu er að kynna og vekja áhuga nemenda í framhaldsskólum á verk- og tækninámi og fjölbreyttum störfum í iðnaði. Í fyrra sigraði lið Menntaskólans á Akureyri í Boxinu.