Fréttasafn



5. sep. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Má bæta gagnatengingar og raforkuverð til gagnavera

Rætt var um uppbyggingu gagnaversiðnaðar hér á landi við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær í tilefni þess að skipaður hefur verið starfshópur sem á að greina og meta starfsumhverfi gagnavera. Starfshópurinn er skipaður af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Má bæta gagnatengingar og raforkuverð

Í viðtalinu segir Sigurður að Ísland sé vel samkeppnishæft á sumum sviðum hvað gagnaversiðnaðinn varðar, meðal annars er loftslag á Íslandi mjög heppilegt fyrir vélbúnaðinn því hér er kaldara en annars staðar, hrein orka og nægt landrými eru til staðar ásamt aðgengi að hæfu starfsfólki. En það er helst tvennt sem má bæta:  „Það er annars vegar gagnatengingar við útlönd vegna þess að gagnaver er iðnaður án landamæra og við erum í raun og veru bara með  eina tengingu við útlönd, sem er ekki nægilegt upp á öryggissjónarmið að gera. Ef hún mundi rofna þá er ekki öðru til að dreifa, sem skapar þá áhættu. Hitt er varðandi rafmagn en við höfum lagt á það áherslu að gagnaver njóti sambærilegra kjara og fengju verð sem væri þá nær stórnotendum, heldur en það verð sem er verið að greiða í dag. Við höfum séð það að stjórnvöld í öðrum löndum hafa gengið ansi langt til þess að sækja slíkan iðnað til sín. Við sjáum það til dæmis í Svíþjóð, þar sem hafa verið veittir skattalegir hvatar, skattaafslættir og annað til þess að laða slíka starfsemi á svæðið.“

Sigurður er spurður að því hvað það er helst sem þarf að gera til að auka líkurnar á að menn komi hingað með svona starfsemi? „Ég held að það þurfi að skoða hvað hægt er að gera varðandi rafmagnið, annað hvort að vera með einhverja skattalega hvata eða verðið væri þá nær því sem gengur og gerist með stærri iðnað. Síðan hitt að bæta gagnatengingar þannig að við værum samkeppnishæf á því sviði líka. Við sjáum það að stór fyrirtæki sem eru að leita eftir þessari þjónustu, ég get nefnt dæmi eins og Amazon, Facebook eða Google og fleiri stórfyrirtæki sem við þekkjum öll til, þau gera miklar kröfur og eitt af því eru öruggar tengingar og þar erum við eftirbátar annarra.“

Er það mikið mál í krónum talið? „Já, það er svolítið mál að gera það. En fyrir vikið þá held ég líka að við gætum náðað höfða til öðruvísi kúnnahóps og fjölbreyttari sem mundi renna miklu styrkari stoðum undir þennan iðnað hér á landi en ella. Það væri mikið unnið með því að gera það.“

Er gert ráð fyrir að í framtíðinni verði alltaf stuðst við einhverskonar kapal eða er þetta ekkert að færast upp í loftið? „Ég held að við þurfum alltaf kapal á milli landa, héðan og annað. Við erum það langt frá öðrum.“

Jákvætt skref hjá stjórnvöldum að skipa starfshópinn

Þegar Sigurður er spurður að því hvenær megi búast við niðurstöðum starfshópsins svarar hann: „Við fögnum mjög stofnun þessa starfshóps og væntum mikils af hans störfum. Honum er falið það mikilvæga verkefni að greina betur okkar samkeppnishæfni og hvernig aðrir hafa verið að haga sínum málum. Búist má við niðurstöðum frá hópnum í byrjun næsta árs. Þá verður mjög gaman að sjá hvort að stjórnvöld bregðist við á einhvern hátt með það að markmiði að byggja þennan iðnað frekar upp hér á landi og renna styrkari stoðum undir hann sem að ég held að sé mjög eftirsóknarvert.

Við sjáum það líka að núna stendur 4. iðnbyltingin yfir, hún er hafin og hún er staðreynd. Henni fylgja margvísleg tækifæri þó auðvitað verði breytingar líka. Á meðan olía og stál voru hráefni í fyrri iðnbyltingum þá eru gögn hráefnin í þessari iðnbyltingu, söfnun þeirra og úrvinnsla. Það auðvitað þýðir að miklu meiri þörf er fyrir gagnaver og þá auðvitað líka meiri tengingar.“

Í lok viðtalsins spyrja þáttastjórnendur Sigurð að því hvort ekki þurfi að spýta í lófana og ganga rösklega til verks ef á að bæta tengingar og markaðssetja þetta: „Jú ég held að það sé lag að gera það og þess vegna fögnum við mjög stofnun þessa starfshóps. Ég held að það sé mjög gott skref í þessa átt. Þetta er virkilega jákvætt skref hjá stjórnvöldum og sýnir auðvitað þeirra áhuga á málinu að vera reiðubúin að leggja út í þessa vinnu. Það er mjög jákvætt en ég er sammála því að það þarf að ganga hreint til verks og þetta er mjög jákvætt skref í þá átt.“

Hér fyrir neðan má hlusta á viðtalið:

Bylgjan, 4. september 2017.