Fréttasafn



10. nóv. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Marshall-húsið og Bláa lónið fá hönnunarverðlaunin í ár

Marshall-húsið og Bláa lónið hlutu hönnunarverðlaunin í ár en verðlaunin voru afhent í fjórða sinn við hátíðlega athöfn í Iðnó í gærkvöldi. Marshall-húsið hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2017 og Bláa lónið hlaut viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, afhenti Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, viðurkenninguna. 

Viðurkenninguna fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun eða arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni. 

Umsögn dómnefndar: „Hönnun er órjúfanlegur hluti af heildarmynd fyrirtækisins sem vinnur náið með framúrskarandi arkitektum og hönnuðum þvert á greinar. Þessi framsýni á svo sannarlega þátt í því að fyrirtækið hefur notið þeirrar velgengni sem raun ber vitni og átt sinn þátt í vinsældum Íslands sem áfangastaðar. Bláa Lónið er eitt besta dæmið á Íslandi um það að fjárfesting í góðri hönnun margborgar sig.“

Marshall-húsið varð fyrir valinu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, afhenti Hönnunarverðlaun Íslands 2017, eina milljón króna, til handhafa sem eru Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason, arkitektar Kurt og Pí, fyrir Marshall-húsið. Þeir leiddu hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta. Fimm verkefni voru í forvali dómnefndar og varð Marshall-húsið fyrir valinu.

Marshall-húsið er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla en hýsir nú Nýlistasafnið, Kling og Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar ásamt vinnustofu og Marshall Restaurant + Bar. 

Umsögn dómnefndar: „Verkið kristallar vel heppnaða umbreytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum. Arkitektarnir hafa þróað verkefnið frá hugmyndavinnu til útfærslu og leitt saman breiðan hóp aðila til að skapa heilsteypt verk. Í verkinu er vel unnið með sögu byggingarinnar og samhengi staðar og til verður nýr áfangastaður fyrir samtímalist í Reykjavík á áhugaverðu þróunarsvæði í borginni. Marshall húsið er gott  dæmi um hvernig með aðferðum hönnunar verður til nýsköpun í borgarumhverfinu.“

Ljósmyndir: Rut Sigurðardóttir.

Honnunarverdlaun2017SH