Fréttasafn



21. okt. 2016 Iðnaður og hugverk

Matvælafyrirtæki vinna að því að draga úr sóun

Á Matvæladegi Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands á Hótel Natura 20. október flutti Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs SI, erindi um matvæli og umhverfismál. Í erindi sínu sagði hún frá því hvernig verkefni fyrirtækja í umhverfismálum hafa færst frá því að snúast um að hreinsa það sem fer frá fyrirtækjum yfir í að lágmarka sóun í vinnslunni sjálfri og virðiskeðju. Samkvæmt könnun Hagstofunnar huga matvælafyrirtæki að umhverfismálum, en um 60% fyrirtækja svara því til að nýsköpun á árunum 2012-2014 hafi skilað umhverfislegum ávinningi fyrir fyrirtækin. Bæði er unnið að því að minnka efnis- og orkunotkun en einnig að finna nýtingu á hráefnum sem áður var hent.

Bryndís fjallaði einnig um matarsóun og hvernig nýjasta tækni bætir vinnsluferla þannig að allt nýtist. Með öflugri greiningum og hugbúnaði má bæta áætlanir fyrir framleiðslu og sölu og minnka líkur á að vörur dagi uppi á lagerum. Umbúðir eru mikilvægar til að tryggja öryggi matvæla og minnka skemmdir í flutningum. Réttar umbúðir geta einnig lengt líftíma matvæla og minnkað líkur á að þeim verði hent.

Erindi Bryndísar.

Á Hringbraut er hægt að horfa á viðtal Lindu Blöndal við Bryndísi. Viðtalið við Bryndísi hefst á 15. mínútu.