Fréttasafn



26. sep. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Meistarafélag byggingarmanna í Vestmannaeyjum endurvakið

Meistarafélag byggingarmanna í Vestmannaeyjum var endurvakið á kraftmiklum fundi í Eyjum í gær þar sem tæplega tuttugu meistarar komu saman með starfsmönnum Samtaka iðnaðarins, þeim Árna Jóhannssyni, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, og Friðriki Á. Ólafssyni, viðskiptastjóra byggingariðnaðar hjá SI. Þeir Árni og Friðrik segja að hástreymt hafi verið og blásið 20 metra á sekúndu af suðaustri á meðan á fundinum stóð en í fundarsalnum hafi líka leikið ferskir vindar þar sem mikill hugur var í mönnum.

Mikil uppbygging á sér stað í Vestmannaeyjum og því líf og fjör í byggingariðnaðinum. Meistarafélag byggingarmanna hefur verið í láginni um nokkurt skeið, en þar sem mikill viðsnúningur hefur verið í Eyjum undanfarin misseri fannst byggingamönnum full þörf á að blása lífi í félagið. Félagið starfar nú innan Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins og nýtur nábýlis annarra meistarafélaga.

Menntamálin voru fundarmönnum hugleikinn og mikill áhugi er á að leiða þau mál þannig til lykta að ungir Vestmannaeyingar geti aflað sér iðnmenntunar á sem þægilegasta máta. Áhyggjur hafa verið af þeirri þróun að ófaglærðir séu að ganga í lögvernduð störf, eins og vill brenna við þegar eftirspurn og verkefnaframboð eykst.