Fréttasafn



13. mar. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Metaðsókn að Verk og vit

Um 25.000 gestir komu á sýninguna Verk og vit sem haldin var í Laugardalshöll um síðustu helgi. Þessi mikli fjöldi sýnir að áhuginn er mikill meðal fagaðila og almennings á byggingariðnaði, mannvirkjagerð og skipulagsmálum. Þetta eru mun fleiri gestir en mættu á Verk og vit 2016, þegar um 23.000 manns heimsóttu sýninguna. Alls tóku 120 sýnendur þátt að þessu sinni og kynntu vörur sínar og þjónustu, en þetta var í fjórða sinn sem sýningin var haldin.

_D4M7666„Við áttum von á góðum viðtökum, því áhuginn hefur verið mikill á síðustu sýningum. Það er samt ánægjulegt að sjá að nú er metaðsókn, eða um 25.000 manns sem komu og skoðuðu það sem sýnendur höfðu upp á að bjóða. Það er greinilegt að Verk og vit hefur skipað sér mikilvægan sess hjá fagaðilum til að hittast og mynda viðskiptasambönd, enda var helmingur sýningarsvæðisins seldur aðeins mánuði eftir að sýningin fór í  sölu. Mánuði áður en hún var opnuð var allt sýningarsvæðið uppselt og komust færri að en vildu í þetta sinn,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, setti sýninguna. Við
setninguna fluttu einnig ávörp Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. 

_D4M7720Fjöldi viðburða var haldinn samhliða sýningunni, m.a. ráðstefnan Framtíð höfuðborgarsvæðisins, skipulag, innviðir og fjármögnun. Um 1.200 nemendum úr 10. bekk var boðið á sýninguna í samstarfi við Tækniskólann – skóla atvinnulífsins, en markmið heimsóknarinnar var að kynna fyrir 
nemendum atvinnumöguleika iðnaðarins, áhugaverð og nauðsynleg störf og menntun í þessum geira og þau tækifæri sem Tækniskólinn hefur upp á að bjóða fyrir ungt fólk. Var þetta í annað sinn sem nemendum 10. bekkjar var boðið á Verk og vit.

Sýningin Verk og vit er ætluð þeim sem koma að byggingaiðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, menntastofnunum,
hönnuðum og ráðgjöfum. Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru
atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Landsbankinn, BYKO, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.

_D4M8077

Samtök iðnaðarins voru meðal þátttakanda á sýningunni. Á myndinni eru Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, og Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði. 

Hér er hægt að skoða myndir frá sýningunni.